Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Er fresturinn of skammur fyrir evruna?

Í Fréttablaðinu í dag las ég að CCP telur að það geti haldið höfuðstöðvum sínum hér í tvö ár ennþá miðað við núverandi gjaldeyrishöft. Svipuð viðhorf þar sem rætt hefur verið um að best sé að opna hagkerfið með nýjum gjaldmiðli sem fyrst hefur mátt heyra í fjölmiðlum undanfarið, m.a. í Spegli RÚV nýlega.  Ef staðan er almennt þannig hjá fyrirtækjum að þau þola ekki lengur við en 2-3 ár í núverandi kerfi þá bendir það sterklega til að evran sé ekki inni í myndinni sem raunhæfur valkostur.

Þessu veldur óhjákvæmilegur tími sem aðildarumsókn að ESB hlýtur að taka, sem og tími í kjölfar þess sem fer í aðlögun hagkerfisins svo það verði hæft til að taka upp evruna. Það má vera mikil flýtimeðferð sem verður komin með Ísland inn í myntbandalag ESB áður en 2-3 ár eru liðin. Sá góði maður Benedikt Jóhannesson talaði í umræddum Spegli og lagði þar ríka áherslu að þetta þyrfti að gerast sem fyrst, annars færum við aftur á "vefstólastigið" eins og hann komst að orði.

Ég hef ekki miklar efasemdir um stöðumat Benedikts og stjórnar CCP en ég hef aftur á móti efasemdir um að tilveruna í ESB með tilheyrandi fullveldisafsali, afsali fulls forræðis yfir landbúnaðarmálum og einnig afsali yfir nýtingu sjávarauðlinda. Hvernig verður öryggismálum í ESB t.d. háttað? Mun síðar verða stofnaður Evrópuher og mun e.t.v. verða herskylda í þeim her? Verða Íslendingar þá herskyldir? Er þetta allt ásættanlegt fyrir það eitt að fá að skipta um gjaldmiðil?

Sumir ESB sinnar tala eins og þeir sjái framtíðina í kristalskúlu. Það gerðu líka þeir aðilar sem vildu koma Orkuveitu Reykjavíkur í hendur einkaaðila. Þá átti allt að gerast á leifturhraða og þá var mikið talað um mikla hagkvæmni þess að framkvæma aðgerðina. Samlíkingin er slæm. Sígandi lukka er best. Það er gott og sjálfsagt að hafa í huga að enginn, alls enginn sér framtíðina, jafnvel þó þeir hafi bestu fáanlegu tölulegar upplýsingar við höndina.

Flest bendir því til að ef ásættanleg lausn fyndist í gjaldmiðilsmálinu þá væri hægt að fara yfir ESB umræðuna á þeim rólegu nótum og á þeim tíma sem slík umræða hlýtur óhjákvæmilega að þarfnast.  

Í nýlegum pistlum: Kjósendur fái að minnsta kosti þrjá valkosti í ESB kosningum kem ég líka inn á það að ef til kosninga um ESB aðild kemur til þá þurfa þrír kostir að vera í boði, þ.e. evra í ESB, króna og svo þriðji gjaldmiðill.  Fólk verður að kjósa ESB af því að það vill ESB en ekki bara vegna þess að það vill opið hagkerfi og betri gjaldmiðil en krónuna. Annars verður um þvingaða aðild að bandalaginu að ræða.  Er breska pundið besti kosturinn? velti ég upp möguleikum breska pundsins.


Gæti Varnarmálastofnun sameinast Landhelgisgæslunni?

Heyrst hefur í umræðu og fregnir hafa borist af því að Vinstri grænir vilji leggja Varnarmálastofnun niður og færa verkefni hennar annað, m.a. til Flugstoða sem eru einkahlutafélag og Björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlíð [1].

Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að í ljósi nýlegs atviks þegar tveir kjarnorkukafbátar rákust á í Biskayaflóa að nauðsyn þess að hafa eftirlit með óvæntum ferðum hernaðartækja er alltaf til staðar þó deila megi um hversu stranga eftirfylgni slíkt eftirlit þurfi að hafa. Varla þarf að útlista fyrir nokkrum þann umhverfisskaða sem kjarnorkuslys innan íslensku landhelginnar gæti haft.

Ef herveldin fá óáreitt að telja að íslenska landhelgin sé eftirlitslaust svæði, nánast eins og alþjóðlegt hafsvæði má gera ráð fyrir því að það verði álitið hagstæður staður til athafna á borð við þær sem fram fóru í Biskayaflóanum. Sú spurning hlýtur því að vakna hvort ekki sé eðlilegt ef rætt er um að leggja Varnarmálastofnun niður að heppilegra sé að sameina hana Landhelgisgæslunni og flytja verkefni hennar þangað? Þannig gæti eflaust náðst fram sparnaður með því að hafa eina yfirstjórn og eina stofnun í stað tveggja. Einnig mætti huga að því að hið mikla loftrýmiseftirlit sem fram fer er trúlega gagnslítið m.t.t. fyrirbyggjandi áhrifa og hefur í raun sömu stöðu hernaðarlega séð og heræfingar. Það sem gera þarf er að byggja upp kerfi sem gefur kost á mótvægisaðgerðum þegar vart verður við óvænt hernaðartæki eða aðra grunsamlega umferð og þá ekki bara í lofti heldur einnig í og á sjónum innan landhelginnar.

[1] http://www.visir.is/article/20081219/FRETTIR01/794207672


Kjósendur fái að minnsta kosti þrjá valkosti í ESB kosningum

Sumir stjórnmálamenn tala um að nauðsynlegt sé að sækja um aðild að ESB svo þjóðin fái að vita að hverju hún gengur hvað varðar ESB. Nú kann það að vera að margir séu hlynntir ESB aðild á þeim forsendum helstum að þar fái þjóðin tækifæri til að skipta um gjaldmiðil.

Engan af þessum ESB talsmönnum hefi ég samt heyrt ræða um nauðsyn þess að hafa fleiri kosti en evruna  í boði fyrir þá kjósendur sem vilja nýjan gjaldmiðil. Ef valið stendur bara um íslensku krónuna og evru með ESB aðild þá er líklegt að ýmsir kjósi ESB aðildina nauðugir viljugir því enginn annar gjaldmiðilskostur er í boði. Ef kosningar um aðild að ESB verða á dagskrá mun einnig í þeim sömu kosningum verða að vera búið að kanna annan nýjan valkost í gjaldeyrismálum en evru. Annars skapast hætta á að um þvingaðar kosningar verði að ræða og þjóðin missi fullveldi sitt nauðug því hún hefur ekki aðra nýja kosti í gjaldmiðilsmálum en evruna.

Þessir aðilar tala réttilega um nauðsyn þess að þjóðin fái að velja, en ef val hennar á að vera frjálst þá verður hún að hafa fleiri en tvo kosti í boði í gjaldeyrismálum, þ.e. bara krónuna eða evruna. Í síðasta pistli mínum Er breska pundið besti kosturinn? benti ég á ýmis atriði sem mæla með breska pundinu. Það er eru reyndar vísbendingar um að það sé heppilegri kandídat í gjaldeyrismálum heldur en Bandaríkjadollar. Með því að skoða málin þá má segja að hægt sé að vega og meta pund og evru þannig:

Viljum við fórna yfirráðum yfir sjávarauðlindinni sem við munum á endanum þurfa að gera ef við göngum í ESB, fyrir prósentumismuninn á núverandi útflutningi til evrusvæðisins og útflutningnum til Bretlands. En sá munur er 32% af útflutningi fyrir árið 2007 [1]. Sá munur getur trúlega sveiflast eitthvað milli ára. Til að finna út heildaráhrif þarf einnig að reikna hver ávinningur verður af því að halda forræði yfir sjávarauðlindinni í innlendri eigu. Einnig þarf að vega og meta hver verður greiðslujöfnuður Íslands m.t.t. ESB, mun ESB aðildin að endingu verða okkur dýr í formi skatta og gjalda eða munum við njóta það ríkulegra styrkja að þeir vega upp skattana? Við skulum gera okkur grein fyrir því að það eru fleiri valkostir í boði en evran og það þarf að reikna þetta dæmi til enda til að þjóðin hafi raunhæfar forsendur til frjáls vals en verði ekki þvinguð með nauðung til að kjósa ESB bara vegna þess að hún vill nýjan gjaldmiðil.

1. http://www.forsaetisraduneyti.is/media/Ymislegt/Evran.pdf


Er breska pundið besti kosturinn?

Umræður um hvað gera skuli í gjaldeyrismálum virðast vera komnar í öngstræti og þrætur um aðild að ESB. Í þessu sambandi má benda á að nýlega benti breski Evrópuþingmaðurinn David Hannan á sterk rök fyrir því að Íslendingar eigi að taka upp breska pundið. Frétt þess efnis birtist um þetta á mbl.is hér og grein Davids er að finna hér. Rök hans eru í stuttu máli þessi:

1. Bretland er stærsta viðskiptaland Íslands. 19% af útflutningi Íslands fara til Bretlands. Þá eru fjárfestingar Íslendinga meiri í Bretlandi en í öðrum ríkjum samanlagt.

2. Upptaka pundsins er ekki eins dýr og aðild að ESB. Íslendingar munu halda yfirráðum yfir auðlindum sínum og þurfa ekki að greiða stórfé í sjóði ESB.

3. Líkur eru á að Bretar væru í besta falli ánægðir með þá aðgerð en í versta falli stæði þeim á sama.  „Okkur líkar vel við ykkur," segir Hannan og bætir við að ólíkt mörgum ESB-ríkjum hafi Bretar aldrei séð ofsjónum yfir velgengni Íslendinga eða litið á sjálfstæði Íslands sem ógn við Evrópuþróunina. „Ermarsundseyjarnar og Mön eru í gjaldmiðilssambandi við Bretland en standa utan Evrópusambandsins. Þær eru miklu ríkari en við en okkur er alveg sama."

Varðandi fyrstu rökin þá hlýtur að vera hagkvæmt fyrir útflytjendur vöru að þurfa ekki að kaupa íslenskar krónur af bönkum þegar gjaldeyrir er fluttur heim. Þannig næst fram sparnaður sem gerir útflutningsgreinarnar samkeppnishæfari og ætti að auka umfang og veltu í frum- og útflutningsframleiðslugreinum fremur en bankageiranum eins og verið hefur hingað til.

Heimild: http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/02/15/island_aetti_ad_taka_upp_breska_pundid/

 


Um ágreining hagfræðinga austan hafs og vestan og aðferðir þeirra

Aðgerðir hinnar nýju ríkisstjórnar Obama vestanhafs sem byggja á innspýtingu fjármagns inn í hagkerfið sem og seðlaprentun virðast vera umdeildar meðal hagfræðinga sérstaklega hérna megin Atlantsála þó svo að Þorvaldur Gylfason sé greinilega ekki einn þeirra ef marka má nýlegan Fréttablaðspistil hans. Í lokaorðum pistilsins má merkja að hann telji að hagfræðingar í Evrópu ættu að fara að dæmi starfsbræðra sinna Vestanhafs, en eftirtektarvert er að þeir virðast, sumir hverjir vera á öndverðum meiði og vara eindregið við skuldasöfnun ríkisins á krepputímum. Nýlega kom einn þeirra í sjónvarpið og hélt þeim viðhorfum fram.

Erfitt er fyrir leikmenn að gera sér grein fyrir forsendum hagfræðinganna og þessa ágreinings, en skiljanlegt er að Bandaríkjamenn byggi á reynslu sinni af kreppunni miklu og New Deal áætlun Roosevelt forseta sem almennt er talið að hafi rofið vítahring víxlverkandi lækkana og hruns. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að kreppan mikla hófst með hruni í október 1929 en efnahagsáætlun forsetans var ekki hrundið í framkvæmd fyrr en á árunum 1933-1938.

Hugsast getur að báðar fylkingarnar hafi rétt fyrir sér að nokkru leyti en tímasetningin á því hvenær gripið skuli inn í sé lykilatriði. Hugsast getur að það sé ekki skynsamlegt að verja miklum fjármunum í varnaraðgerðir á meðan hrunið er enn í gangi en þeim mun skynsamlegra að hefjast handa þegar ljóst er að markaðir eru farnir að verða stöðugir á nýjan leik og gjaldþrot eru orðin fátíð.

Málið er að hagfræðingar virðast ekki hafa meiru úr að moða en kenningum en ekkert hefur heyrst af því að þeir notist við nein sérstök spálíkön eða hermiforrit. Síðan geta menn fátt annað gert en aðhyllast kenningarnar eða vera ósammála þeim.

Það er í rauninni merkilegt að enn skuli ekki vera búið að búa til raunhæf spá- eða hermilíkön af efnahagskerfum þjóðanna. Verkefnið er að vísu stórt en hvorki óviðráðanlegt né óraunhæft. Það sýna veðurspárkerfin og einnig fullkomnir tölvuleikir svo sem skákforrit. Með því að byggja ýmsar breytur inn í slík líkön og með aðgengi að nægu vélarafli ætti að vera hægt að segja fyrir um hvaða áhrif ýmsar efnahagslegar aðgerðir og breytistærðir hafa á markaði og þjóðfélagshópa með meiri áreiðanleika en áður hefur þekkst.  Hugsanlega er þarna sóknarfæri og mögulegur samstarfsflötur fyrir rannsóknarstofnanir í tölvufræðum og efnahagsfræðum.


Af hverju hugnast mér ekki ESB?

Af hverju hugnast mér ekki ESB? Ég gæti nefnt þrjár ástæður:

1. Hömlur á verslunarfrelsi. Hér er ein lítil saga um þetta. Ég er áhugamaður um fjarskipti með talstöðvum og mig langaði í fyrra að kaupa CB- talstöð í Bandaríkjunum og flytja inn. Mér var tjáð af starfsmanni Póst- og símamálastofnunar að það væri óheimilt að flytja inn talstöðvar nema þær hefðu CE merkingu. Nýjar CB talstöðvar framleiddar fyrir Bandaríkjamarkað eru vel nothæfar hérlendis og eru í fáu ef nokkru frábrugðnar sömu vöru sem framleidd er fyrir ESB nema að þær eru ekki með CE merkinu. Flestar eru þessar stöðvar t.d. með 4 Watta sendistyrk. Stöðvarnar var samt hægt að fá á mun hagstæðara verði í Bandarikjunum síðasta ár. Starfsmaðurinn tjáði mér að ef ég flytti inn svona stöð sem ekki væri með CE merkingu þá yrði hún gerð upptæk í tollinum! Kurteist en afdráttarlaust svar. Ég segi nei takk! Ekkert staðlað ESB helsi fyrir mig. Verslunarfrelsi er dýrmætt frelsi og uppspretta hagsældar og það ætti ekki að taka hugsunarlaust af fólki.

2. Mismunun gagnvart skyldfólki og ættingjum búsettum utan ESB. Konan mín er frá Filippseyjum og hana langaði til að útvega frænku sinni sem þar er búsett vinnu hérlendis því það vantaði starfsfólk á vinnustað hennar. Farið var í langt umsóknarferli og ítrekað auglýst og óskað eftir fólki hérlendis sem ekkert fannst. Eftir næstum árs þóf við kerfið kom loksins afdráttarlaust svar: Ákveðin synjun og vinnustaðnum bent á að snúa sér til Evrópskrar vinnumiðlunar til að afla sér starfsfólks.

3. Breytt sjálfsmynd þjóðarinnar. Ef fólk gengst inn á reglur af þessu tagi sem hér er nefnt að framan og finnur til vanmáttar síns gagnvart því að þeim sé breytt þá lamast bæði frelsishugsunin og sú hugsun að í þessu landi búi frjálsborin þjóð sem einhverju fái breytt með eigin ákvörðunum.  Ef vitringar, sérfræðingar og stjórnlyndir forræðishyggjumenn úti í löndum fá að fara sínu fram hérlendis hvað sem hver tautar og raular hérlendis (eins og til dæmis hvíldartímákvæði vörubílstjóra) þá er erfitt að ætla annað en þessi frelsissjálfsmynd skaðist.


Getur EFTA gengið í endurnýjun lífdaga?

Tillaga Björgólfs Thors í Kastljósinu á dögunum um að taka gengisáhættu út úr rekstri fyrirtækja hér á landi með því að skipta um gjaldmiðil er allrar athygli verð. Hann lagði m.a. til að taka upp svissneska frankann. Viðskiptaráðherra var fljótur til svars og taldi tormerki á því að það væri hægt því til þess þyrfti að koma á myntbandalagi við Sviss.

Nú spyr ég því í framhaldinu: Hvers vegna er ekki hægt að koma á myntbandalagi við Sviss? Hér er þegar fyrir hefð fyrir löngu samstarfi við Sviss í gegnum EFTA fríverslunarbandalag Evrópu sem segja má að sé ekki síðri hugmynd að samstarfi Evrópuríkja en EES þó svo síðarnefnda bandalagið hafi vaxið mun meira á síðustu áratugum. Sú viðleitni EES að koma á Bandaríkjum Evrópu er trúlega óraunhæf. Þó svo stofnun Bandaríkja Norður- Ameríku hafi tekist þrátt fyrir eitt frelsisstríð og eina borgarastyrjöld þá er ekki tryggt að sama gangi í Evrópu. Þar voru menn að stofna nýtt þjóðríki en hér er verið að sameina ríki þar sem hefðir og venjur eru fastar í sessi - sem og þjóðtungur og þjóðarsérkenni sem fólki eru kær.  Í Bandaríkjunum fórnuðu menn sínum þjóðlegu sérkennum af því þeir voru komnir í nýtt land. Hér í Evrópu er ekkert slíkt að gerast.

Fríverslunarbandalag Evrópu er aðili að EES samningnum og sá kostur að efla það bandalag og það samstarf er því möguleiki sem ætti að kanna til hlítar og ekki spillir tillaga Björgólfs í þessu sambandi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband