Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009
Laugardagur, 25.7.2009
Um ágreining hagfræðinga austan hafs og vestan
Erfitt er fyrir leikmenn að gera sér grein fyrir forsendum hagfræðinganna og þessa ágreinings, en skiljanlegt er að Bandaríkjamenn byggi á reynslu sinni af kreppunni miklu og New Deal áætlun Roosevelt forseta sem almennt er talið að hafi rofið vítahring víxlverkandi lækkana og hruns. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að kreppan mikla hófst með hruni í október 1929 en efnahagsáætlun forsetans var ekki hrundið í framkvæmd fyrr en á árunum 1933-1938.
Hugsast getur að báðar fylkingarnar hafi rétt fyrir sér að nokkru leyti en tímasetningin á því hvenær gripið skuli inn í sé lykilatriði. Hugsast getur að það sé ekki skynsamlegt að verja miklum fjármunum í varnaraðgerðir á meðan hrunið er enn í gangi en þeim mun skynsamlegra að hefjast handa þegar ljóst er að markaðir eru farnir að verða stöðugir á nýjan leik og gjaldþrot eru orðin fátíð.
Það er í rauninni merkilegt að enn skuli ekki vera búið að búa til raunhæf spá- eða hermilíkön af efnahagskerfum þjóðanna. Verkefnið er að vísu stórt en hvorki óviðráðanlegt né óraunhæft. Það sýna veðurspárkerfin og einnig fullkomnir tölvuleikir svo sem skákforrit. Með því að byggja ýmsar breytur inn í slík líkön og með aðgengi að nægu vélarafli ætti að vera hægt að segja fyrir um hvaða áhrif ýmsar efnahagslegar aðgerðir og breytistærðir hafa á markaði og þjóðfélagshópa með meiri áreiðanleika en áður hefur þekkst. Hugsanlega er þarna sóknarfæri og mögulegur samstarfsflötur fyrir rannsóknarstofnanir í tölvufræðum og efnahagsfræðum.
Ef þessi kenning hliðstæðurakanna er rétt þá hefur Obama og sérfræðingum hans orðið á mistök. Hann hefur gert áætlanir um uppbyggingu sem teknar eru of snemma í hrunferlinu og þau mistök munu verða dýrkeypt að því leyti að þau munu hægja á uppbyggingu þegar hennar tími rennur upp.
(Byggt á pistlinum: http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/837924/)
Breytt 5.8.2009 kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 9.7.2009
Þjóðráð til sparnaðar á eldsneyti
Nú þegar bensín og díselolía hækkar stöðugt er ekki fráleitt að rifja upp enn einu sinni hvernig best er hægt að draga úr eyðslu. Ég svipaðist um á netinu og bætti svo við úr eigin ranni og fékk út eftirfarandi punkta. Ég tek fram að ég er áhugamaður um málefnið.
1. Þarf að fara ferðina? Er kannski hægt að hringja, fresta henni eða sameina hana annarri ferð?
2. Er hægt að bjóða einhverjum öðrum með til að deila kostnaði?
3. Aðgætið að réttur loftþrýstingur sé í dekkjum. Athugið að holóttur vegur getur orsakað að loft lekur úr dekkjum.
4. Notið hreinsiefni fyrir eldsneytiskerfið.
5. Reynið að forðast mikla hröðun. Mikill snúningur vélar kallar á meiri eyðslu.
6. Reynið líka að forðast að draga of snögglega úr hraða þar sem slíkt ökulag getur aftur kallað á skyndilega hröðun.
7. Takið óþarfa aukahluti úr bílnum svo hann verði léttari.
8. Virðið hraðatakmörk, þau eru sett til að gæta öryggis og einnig m.t.t. hagkvæmni í eldsneytiseyðslu.
9. Skítug loftsía getur orsakað að vélarafl minnkar og stuðlað að meiri eyðslu. Skiptið reglulega um olíu og látið athuga loftsíuna um leið.
10. Látið stilla og yfirfara bílinn reglulega og athuga eldsneytis- og kveikjukerfi.
11. Fylgist með eyðslunni svo strax verði vart við ef bíllinn fer að eyða óeðlilega miklu eldsneyti. Ef þrjár eða fjórar tankfyllingar koma lélega út þá borgar sig að athuga málið.
12. Akið ekki of hratt. Því meir sem vélin erfiðar til að ýta bílnum móti vindi því meiri verður eyðslan.
13. Skiptið um eldsneytissíu samkvæmt ráðleggingum framleiðandans. Einnig er hægt að láta hreinsa innspýtingu á 40-50 þús. km. fresti.
14. Notið hraðastilli (cruse control) ef það er í boði þar sem jafn hraði á lengri vegalengdum stuðlar að sparnaði.
15. Ef um fjórhjóladrifsbíl er að ræða notið þá ekki fjórhjóladrifið nema þar sem þörf krefur.
Um atriði 8 hér að ofan má segja að víða á höfuðborgarsvæðinu eru hraðatakmörk ekki virt. Algengt er að umferðin á stofn- og tengibrautum sé þetta 10 km. fyrir ofan takmörkin. Þessi mikli og ólöglegi hraði orsakar óþarfa sóun og mengun t.d. svifryksmengun yfir vetrartímann auk þess að vera yfir þeim hraða sem umferðarmannvirki eru hönnuð fyrir. Nú þegar lögreglan hefur minni tíma en áður til að fylgjast með þessu þá kemur það í hlut ábyrgra ökumanna að sjá um að halda hraðanum á þessum brautum innan og við leyfileg mörk.