Bloggfærslur mánaðarins, mars 2011

Framtíð langbylgjuútvarpsins?

Vægi útvarps sem fjölmiðils fer síst minnkandi þrátt fyrir samkeppnina við sjónvarpið og netið. Markaðurinn fyrir útvarpsviðtæki er yfirfullur af prýðilegum AM/FM tækjum og margir símar eða tónspilarar innihalda FM útvarpstæki. 

Útvarpsviðtæki sem bjóða upp á móttöku á langbylgju eru samt sjaldséðari en áður þrátt fyrir að þannig tæki séu enn fáanleg.  Aukið hlutfall viðtækja án langbylgju dregur úr öryggishlutverki  langbylgjustöðvanna.  Ný öryggistækni svo sem SMS sendingar munu líklega bætast við í flóru öryggistækja án þess að draga úr vægi dreifikerfis fjölmiðlanna en í því neti er og verður útvarpið nauðsynlegur þáttur. 

Annað hvort þarf að gera kröfu um að innflutt útvarpsviðtæki séu með langbylgju eða þá að útsendingar verði fluttar af langbylgju yfir á miðbylgju (AM). Fyrri kosturinn er ekki góður því hann myndi skerða valkosti íslenskra neytenda. Hinn síðari er skárri en þá þyrfti líklega að fjölga sendistöðvum um tvær, auk þess að endurnýja tækjakost Gufuskála og Eiða. 

Fleiri pistlar um sama efni:
http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/1066057/
http://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/1053046/


Sveitarstjórnarmenn Árborgar: Hyggilegast er að fresta áformum um virkjanir í Ölfusá

Í máli forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur í Kastljósi í gærkvöldi kom fram að vegna alvarlegrar stöðu er fyrirhugað að fresta virkjanaframkvæmdum. Ástæður þess eru helstar að þær eru áhættusamar og einnig að þær eiga ekki að fara fram í óskiptu búi Orkuveitunnar að mati forstjórans.

Í þessu ljósi getur það vart dulist almenningi að virkjanaáform geta verið áhættusöm, í besta falli fylgja þeim útgjöld vegna umhverfismats sem síðan getur orðið neikvætt. 

Undanfarið hafa íbúum Suðurlands borist þær fréttir að bæjarstjórn Árborgar sé að athuga í fullri alvöru að ráðast í virkjanaframkvæmdir á Ölfusá fyrir ofan Selfoss. Þessi áform sveitarstjórnarinnar eru óvænt því málið var ekki á dagskrá í aðdraganda síðustu kosninga sem snerust að stórum hluta um hvernig bæri að fást við erfiða skuldastöðu sveitarfélagsins. Því er hyggilegast í ljósi aðstæðna að fresta virkjanaáformum þangað til hugur Árborgarbúa er ljós í málinu. Það er engin vissa fyrir því að meirihluti kjósenda sé hlynntur því að leggja fé í þessar framkvæmdir eða undirbúning þeirra. 


Miðjan Selfossi: Fallið frá hálfs milljarðs skaðabótakröfu

Í fundargerð 41. fundar bæjarráðs Árborgar kemur fram að sveitarfélagið kaupir sig frá skaðabótakröfu vegna svokallaðs Miðjusamnings upp á 531 milljón auk dráttarvaxta. Lögfræðilegt mat  bendir til þess að sveitarfélagið kunni að vera skaðabótaskylt. Þetta gerir sveitarfélagið með því að kaupa lóðir Miðjunnar fyrir 175 milljónir króna. „Með þessum kaupum er jafnframt gengið frá samkomulagi um fullnaðaruppgjör vegna Miðjusamninga og verða ekki uppi frekari kröfur á hendur sveitarfélaginu vegna þeirra“ segir í fundargerðinni.

Miðjusamningarnir gengu eins og kunnugt er út á uppbyggingu stórhýsa í miðbæ Selfoss á árunum fyrir hrun. Nú væri fróðlegt og upplýsandi fyrir kjósendur í Árborg ef einhver af þessum efnisatriðum yrðu gerð aðgengileg almenningi svo hægt verði að skilja hvað það var sem brást. Í þessu sambandi væri gott ef hægt væri að fá yfirlit yfir forsendur Miðjunnar og hvort um forsendubrest af hálfu sveitarfélagsins var að ræða. Síðast en ekki síst væri fróðlegt ef lögfræðimatið yrði gert opinbert. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband