Mánudagur, 7.5.2018
Heildstætt svipmót miðbæjar Selfoss gæti skapað verðmæti til framtíðar
Það er eðli verðmæta að úr þeim má gera enn meira virði til framtíðar. En það er líka nokkuð ljóst að ef fólk gerir sér ekki grein fyrir að í þeirra ranni sé verðmæti að finna þá munu líklega fáir benda þeim á það. Ennþá má segja að byggðir Árborgar búi yfir heildstæðu svipmóti og verðmætum sérkennum. Margir sjá í þessum sérkennum menningarverðmæti sem hægt er að byggja á til framtíðar. Nú þegar laðar svipmót og sérkenni strandbyggðanna til sín ferðafólk.
Það urðu mér því mikil vonbrigði að sjá að í greinargerð um breytingu á aðalskipulagi fyrir miðbæ Selfoss sem nýlega var samþykkt stendur að miðsvæðið búi ekki yfir sérkennum sem vert sé að byggja framtíðaruppbyggingu svæðisins á og að markmið aðalskipulagsins sé að reisa þétta byggð með fjölbreyttu yfirbragði ólíkra húsa. Því er reyndar bætt við að þau hús sem þarna eigi að rísa eigi að taka mið af núverandi byggð. Þessi texti greinargerðarinnar er mótsagnakenndur og því er hætt við að framkvæmdaaðilar muni ráða því sem þeir vilja ráða um útlit húsa á svæðinu. Sannfæringar minnar vegna gat ég því ekki annað en greitt atkvæði gegn tillögunni á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 16. febrúar síðastliðinn.
Áður hafði ég gert athugasemd við deiliskipulagstillögu miðbæjarins í þá veru að í henni væri ekki sett fram leiðsögn um útlit fyrirhugaðra bygginga til að samræmis yrði gætt í heildarsvip og byggingarstíl. Í svari sem bæjarlögmaður tók saman og fulltrúar D - lista í nefndinni samþykktu kom eftirfarandi fram:
Í umræddri deiliskipulagsbreytingu var ákveðið að gera ekki fastmótaðar útlitskröfur á byggingum. Framkvæmdaraðilar hafa því frjálsar hendur með hvernig þeir haga útliti bygginga á svæðinu innan marka laga og reglugerða. Skipulags- og byggingarnefnd skal meta útlitshönnun bygginga en markmiðið er fjölbreytt yfirbragð byggðar eins og fram kemur í kafla 3.4 í greinargerð deiliskipulagstillögunnar.
Hætt er við að þrátt fyrir varnaglana tvo, þann í aðalskipulaginu sem segir að byggðin eigi að taka mið af núverandi byggð og hinn í deiliskipulaginu sem segir að skipulags- og byggingarnefnd skuli meta útlitshönnun bygginga að það verði á brattann að sækja fyrir pólitískt kjörna fulltrúa að hafa áhrif á það hvernig byggingar svæðisins munu líta út.
Í þessu sambandi hefur ávallt verið talað um að á svæðinu eigi að rísa kjarni húsa í gömlum stíl. Í orðalagi bæði hins nýsamþykkta aðalskipulags og deiliskipulags er samt ekki staðinn nægilega öflugur vörður um heildstætt útlit svæðisins. Þvert á móti er fjölbreytt yfirbragð byggðar tryggt.
Góðar fyrirætlanir geta breyst og þróast og eignir geta skipt um hendur. Ekki er tryggt að framkvæmdaaðilar framtíðarinnar á svæðinu verði allir sammála því að viðhalda því svipmóti sem hin fegurstu eldri núverandi hús í miðbæ Selfoss eða næsta nágrenni hans gefa tilefni til og einnig ekki heldur að viðhalda þeim sérkennum sem byggðakjarni í gömlum stíl gæti gefið tilefni til. Afleiðingin gæti orðið sundurleitt samansafn húsa að útliti og gerð og í hinum ýmsu stílbrigðum á svæðinu.
Það þarf að vanda enn betur til bæði aðalskipulags og deiliskipulags á þessu svæði, byggja inn í þessi skipulög varnagla sem vernda sérkenni byggðarinnar og tryggja heildstætt svipmót svæðisins, svipmót sem myndi kallast á við þau hús og sérkenni sem fegurst þykja á miðsvæðinu og í nágrenni þess. Þannig gæti heildstætt svipmót miðbæjar Selfoss skapað verðmæti til framtíðar.
Viðbót 31.07.2018: Sjá meðfylgjandi mynd af bréfi frá skipulags- og byggingarfulltrúar svf. Árborgar:
Meginflokkur: Samfélagsmál í Árborg | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.7.2018 kl. 09:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.