Hverfur loftnetssjónvarpið - fær almenningur reikninginn?

Íslensk fjölskylda hlustar á Óskalög sjúklinga haustið 1951 í viðtækinu AustraSamkvæmt nýjustu neytendakönnun Fjarskiptastofu, sem Gallup framkvæmdi í ágúst og september 2025, nota aðeins 0,6% íslenskra heimila loftnet sem sína helstu leið til að horfa á sjónvarp. Við fyrstu sýn virðist það vera mikil breyting frá því fyrir aðeins rúmum tveimur áratugum þegar nánast öll heimili í landinu treystu á loftnet. Á sama tíma hafa myndlyklar, snjalltæki og smáforrit tekið yfir. RÚV hefur þegar hætt gervihnattaútsendingum vegna kostnaðar og aðeins DVB-T2 kerfið stendur eftir. Það má ætla að hugmyndir séu um að slökkva á því kerfi líka.

Það er þó ástæða til að staldra aðeins við tölurnar. Þátttökuhlutfall í könnuninni var aðeins 47,1% – 847 manns af 1.797 svöruðu. Þar sem um netkönnun var að ræða má ætla að þeir sem tóku þátt séu að jafnaði netvæddari en þeir sem slepptu því að svara. Þetta þýðir að niðurstaðan, sem sýnir aðeins 0,6% notkun á loftneti meðal þeirra sem svöruðu, gæti vanmetið þann hóp sem raunverulega notar loftnetið.

Þá er rétt að nefna að engin eftirfylgni virðist hafa verið gerð við þá sem ekki svöruðu, hvorki í síma né með bréfpósti. Í hefðbundnum könnunum er stundum gripið til þess ráðs að láta svör þeirra sem svara í seinni umferð vega tvöfalt til að jafna út skekkju. Hér virðist ekkert slíkt hafa verið gert.

Sjónvarp og hljóðvarp – ólíkar forsendur
Áður en lengra er haldið er mikilvægt að gera greinarmun á sjónvarpi og hljóðvarpi. Hljóðvarp krefst mun minni bandvíddar og getur náð víðfeðmum svæðum með fáum sendum. Með DRM-tækninni gæti hljóðvarpið öðlast nýtt líf sem ódýr, hagkvæmur og öruggur miðill og burðarás í neyðar- og almannavörnum. Sjónvarp er hins vegar annars eðlis. Það þarf mikla bandvídd og fjölda senda. Það gerir loftnetsdreifingu sjónvarps bæði flókna og kostnaðarsama. Því er rökrétt að flytja sjónvarp yfir á internetið, en þá verður að hafa í huga að internetið er hvorki ódýrt né óskeikult.

Evrópa á sömu braut
Þróunin hér á landi endurspeglar það sem gerist annars staðar í Evrópu. Í Bretlandi er stefnt að því að flytja sjónvarpsútsendingar alfarið yfir á netið innan fimmtán ára. Í Danmörku verður loftnetsdreifingu haldið áfram til 2029, en fyrirtækin þar beina nýjum viðskiptavinum stöðugt yfir í streymi. Ástæður eru fyrst og fremst kostnaður og notkun. Loftnetsdreifing er talin vera of dýr miðað við þann litla hóp sem eftir er.

Kostnaður færður yfir á neytendur – þung byrði fyrir einbúa
En það er þjófur í Paradís. Loftnetsdreifing er samfélagsleg fjárfesting þar sem ríkið eða fjölmiðlarnir standa undir rekstri dreifikerfisins. Með því að færa sjónvarpið alfarið yfir á internetið er þessum kostnaði í raun velt yfir á einstaklinginn. Hver og einn þarf þá að greiða fyrir nettengingu með nægri bandvídd til að streyma sjónvarpi.

Fyrir einbúa með litlar ráðstöfunartekjur eftir skatt og húsaleigu getur nettengingin ein og sér verið á mörkum þess að vera of kostnaðarsöm og það þó streymisveitur séu ekki taldar með. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart þó einhverjir í þessum hópi kjósi að halda sig við ókeypis loftnetsútsendingar á meðan þær eru í boði. Með því að loka þeirri leið myndu þeir horfa fram á kostnað sem þeir ráða varla við. Hér er um félagslegt réttlætismál að ræða.

Ranghugmynd almennings um að loftnetsútsendingar séu horfnar
Reynslan sýnir að margir gera sér ekki grein fyrir að sjónvarpssendingar í loftinu séu enn í gangi. Sölumenn netfyrirtækja bjóða iðulega upp á sjónvarpspakka með nettengingum og verða undrandi þegar þeim er sagt að fólk noti enn loftnet. Þetta bendir til þess að almennur skilningur á stöðunni sé takmarkaður.

Hugsanlegt er að markaðssetning net- og dreifingaraðila á sjónvarpsefni hafi átt stóran þátt í þessari ranghugmynd. Með stöðugum auglýsingum og áherslu á netbundna þjónustu hefur sú ímynd skapast að búið sé að loka loftnetsútsendingum. Í raun er þjónustan enn til staðar, en hún er orðin jaðarfyrirbæri og lítt sýnileg í opinberri umræðu. Ekki er heldur að sjá að RÚV hafi lagt neina sérstaka áherslu á að kynna möguleikann. 

Félagsleg áhrif
Þegar loftnetsdreifing hverfur verður áhorf á sjónvarp ekki lengur samfélagsleg grunnþjónusta heldur bundið við þá sem hafa efni á stöðugri nettengingu og áskriftum. Það er ekki aðeins spurning um persónulegan smekk eða tæknival, heldur um rétt fólks til aðgangs að upplýsingum og menningu.

Þar sem loftnetsbúnaður er gamall hefur það gerst að ekki hefur verið ráðist í  endurnýjun í fjölbýlishúsum. Þá er það niðurstaða meirihluta húsfélagsins sem ræður. Íbúar sem treysta á ódýrustu leiðina – að fylgjast með RÚV í gegnum loftnet – hafa þannig orðið af þessari þjónustu, jafnvel þótt þeir sjálfir hefðu viljað halda í hana. Þetta dregur fram þann vanda að ekki eru allir íbúar fjölbýlishúsa í sömu stöðu. Fáir vilja standa upp á fundi og gangast við því frammi fyrir nágrönnum sínum að þeir hafi ekki efni á nettengingu. Þeir sem standa veikast fjárhagslega missa þannig fyrst aðgang að fjölmiðli sem ætlaður er öllum landsmönnum.

Hættan er sú að klofningur skapist milli þeirra sem búa við trausta nettengingu og geta greitt fyrir hana, og þeirra sem þurfa að skera niður og sleppa nettengingu og sjónvarpi alfarið. Í því felst menningarlegt og lýðræðislegt ójafnræði: RÚV átti að vera miðill allra landsmanna, ekki aðeins þeirra sem hafa ráð á nettengingum og tækjum. 

Það má minna á að þegar Útvarp Reykjavík, sem var nafnið sem hljóðvarp RÚV gekk lengi vel undir, hóf göngu sína á fjórða áratugnum var einmitt lögð áhersla á að alþýðan hefði efni á búnaðinum. Ríkisútvarpið rak viðtækjavinnustofu sem framleiddi einföld og ódýr viðtæki, eins og Vestra, Suðra og Austra, sem voru seld á verði sem fólk með meðaltekjur og þar undir átti að ráða við. Takmarkið var „Viðtæki inn á hvert heimili“. Þannig var reynt að stuðla að því að útvarpið næði til allra – ekki bara til þeirra efnameiri. Sú hugsun á ekki síður við í dag, þegar tæknin er að breytast. 

Ákall til stjórnvalda
Tæknin breytist stöðugt, en stjórnvöld verða að horfa lengra en til næstu samninga og kostnaðartalna. Þegar næsta óveður, eldgos eða netárás skellur á verðum við að vita að þjóðin hafi öruggar boðleiðir.

Því þarf að tryggja áframhaldandi þróun hljóðvarps með DRM sem traustrar varaleiðar fyrir alla landsmenn. Einnig þurfa stjórnvöld að íhuga vandlega hvort eigi að láta félagslegan ójöfnuð aukast hægt og hljóðlega með því að skilja tekjulægri hópa eftir án almannasjónvarps. Þetta snýst ekki aðeins um tækni heldur um öryggi, jöfnuð og lýðræðislegt aðgengi að upplýsingum.

Heimild
Neytendakönnun Fjarskiptastofu um leiðir heimila til sjónvarpsáhorfs, framkvæmd af Gallup 21. ágúst – 1. september 2025. Helstu niðurstöður: Myndlykill frá Símanum 28,4%, utanáliggjandi snjalltæki 27,6%, smáforrit í snjallsjónvarpi 22,8%, myndlykill frá Sýn 11,8%, tölva/spjaldtölva/sími 8,9%, útsending um loftnet 0,6%.


Bloggfærslur 23. september 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband