Færsluflokkur: Lífstíll

Þjóðráð til sparnaðar - 2. hluti: Sjónvarpið

Vinur minn einn sem fer reglulega með efni í brotajárnsgáminn sagði mér að fyrstu dagana eftir hrunið síðasta haust hefðu verið stór nýleg túpusjónvarpstæki í gáminum nánast í hvert skipti sem hann fór. Þegar leið á veturinn dró úr þessu en þessa vikuna byrjaði þetta aftur. Í gáminum voru stór og reyndar stundum lítil túpusjónvörp. Hvað veldur og hver er ávinningurinn?

Þessi athugun á ruslinu bendir því til að viðbrögð margra við kreppufréttunum hafi verið þau að endurnýja raftækin, henda túpusjónvarpinu, og kaupa flatskjá á gamla verðinu. Ótrúlegt er að öll þessi nýlegu túpusjónvörp hafi verið ónýt áður en þau lentu í ruslinu. Þessi vinur minn hirti reyndar eitt lítið tæki sem lá efst í gáminum og það var í lagi þrátt fyrir nokkrar rispur sem hafa líklega komið þegar tækið lenti í gáminum.

Hvað það er sem orsakar þessa bylgju núna er ekki gott að segja en hugsast getur að einhverjir nýti skattaafsláttinn til að koma tímabærri endurnýjun á sjónvarpstækinu í framkvæmd. En hver er ávinningurinn af því að henda túpusjónvarpi sem er í lagi og kaupa flatskjá?

Þó hugsast geti að flatskjá fylgi betri sjálfsímynd og hagkvæmari nýting á plássi þá gefa myndgæði túpusjónvarpa og viðbragðsflýtir flatskjáum lítið ef nokkuð eftir. Sumir telja þau reyndar betri. Rafmagnseyðsla gömlu túpusjónvarpanna er líka yfirleitt minni en flatskjáa, sérstaklega stóru plasma skjáanna.  Hinu spánnýja, flata sjónvarpstæki fylgja því að líkindum hærri rafmagnsreikningar ef ekki er hugað að ákveðnum sparnaðarráðum. Hér koma nokkur slík tekin af netinu ásamt smá kryddi frá undirrituðum:

1. Slökkvið á sjónvarpinu þegar hætt er að horfa á það. Ekki nota Standby. Slökkvið einnig á tengdum tækjum svo sem DVD spilara eða leikjatölvu. Heppilegt getur verið að hafa fjöltengi með rofa og rjúfa strauminn inn á þessi tæki þegar búið er að slökkva á þeim. Þá er örugglega slökkt.

2. Slökkvið á Quick Start möguleika. Þessi möguleiki eykur rafmagnseyðslu ef Standby er notað.

3. Dragið úr baklýsingu LCD skjáa. Þetta dregur úr ljómun og birtu skjásins en á móti er kannski hægt að draga úr birtunni í herberginu.  Mikil birta hjá sjónvarpi er óþörf hvort sem er og spillir bíótilfinningunni.

4.  Ef tækið er með orkusparandi ham hafið þá stillt á hann. Nýrri flatskjáir gætu verið með þessum möguleika.

5.  Ef ekki er enn búið að kaupa flatskjáinn reynið þá að komast af með eins lítinn skjá og hægt er. Hægt er að færa sjónvarpsstólana nær og ná sömu áhrifum og ef stór skjár er notaður. Við það sparast líka dýrmætir fermetrar af húsplássi.

6. Notið ekki mörg sjónvörp í sama húsi heldur reynið að sameina fjölskylduna fyrir framan eitt tæki. Barnaefni getur verið mjög skemmtilegt og yngri fjölskyldumeðlimum mun þykja þú bæði viðræðubetri og skemmtilegri ef þú getur talað við þá um uppáhalds sjónvarpsefnið þeirra.

7. Horfið minna á sjónvarp eða notið sjónvarpstímann til að vinna eitthvað í höndunum svo sem strauja, brjóta saman föt eða prjóna.  Þá nýtist tíminn betur og borgar sig upp.

8. Athugið heildaráhorf ykkar og metið hvort hægt sé að segja upp áskrift sem hugsanlega er lítið notuð. Talsvert er í boði af innlendu efni í opinni dagskrá. Gervihnattabúnaður gæti borgað sig upp á einu ári ef vel er haldið um budduna og á t.d. Astra 2 hnettinum eru nokkrar erlendar stöðvar í opinni dagskrá, svo sem SkyNews, CNN að ógleymdri föndurrásinni Create and Craft.

Byggt á: http://reviews.cnet.com/green-tech/tv-power-saving-tips/?tag=greenGuideBodyColumn.0

Höfundur er áhugamaður um málefnið.


Þjóðráð til sparnaðar á eldsneyti

Nú þegar bensín og díselolía hækkar stöðugt er ekki fráleitt að rifja upp enn einu sinni hvernig best er hægt að draga úr eyðslu.  Ég svipaðist um á netinu og bætti svo við úr eigin ranni og fékk út eftirfarandi punkta. Ég tek fram að ég er áhugamaður um málefnið.

1. Þarf að fara ferðina? Er kannski hægt að hringja, fresta henni eða sameina hana annarri ferð?
2. Er hægt að bjóða einhverjum öðrum með til að deila kostnaði?
3. Aðgætið að réttur loftþrýstingur sé í dekkjum. Athugið að holóttur vegur getur orsakað að loft lekur úr dekkjum.
4. Notið hreinsiefni fyrir eldsneytiskerfið.
5. Reynið að forðast mikla hröðun. Mikill snúningur vélar kallar á meiri eyðslu.
6. Reynið líka að forðast að draga of snögglega úr hraða þar sem slíkt ökulag getur aftur kallað á skyndilega hröðun.
7. Takið óþarfa aukahluti úr bílnum svo hann verði léttari.
8. Virðið hraðatakmörk, þau eru sett til að gæta öryggis og einnig m.t.t. hagkvæmni í eldsneytiseyðslu.
9. Skítug loftsía getur orsakað að vélarafl minnkar og stuðlað að meiri eyðslu. Skiptið reglulega um olíu og látið athuga loftsíuna um leið.
10. Látið stilla og yfirfara bílinn reglulega og athuga eldsneytis- og kveikjukerfi.
11. Fylgist með eyðslunni svo strax verði vart við ef bíllinn fer að eyða óeðlilega miklu eldsneyti. Ef þrjár eða fjórar tankfyllingar koma lélega út þá borgar sig að athuga málið.
12. Akið ekki of hratt. Því meir sem vélin erfiðar til að ýta bílnum móti vindi því meiri verður eyðslan.
13. Skiptið um eldsneytissíu samkvæmt ráðleggingum framleiðandans. Einnig er hægt að láta hreinsa innspýtingu á 40-50 þús. km. fresti.
14. Notið hraðastilli (cruse control) ef það er í boði þar sem jafn hraði á lengri vegalengdum stuðlar að sparnaði.
15. Ef um fjórhjóladrifsbíl er að ræða notið þá ekki fjórhjóladrifið nema þar sem þörf krefur.

Um atriði 8 hér að ofan má segja að víða á höfuðborgarsvæðinu eru hraðatakmörk ekki virt. Algengt er að umferðin á stofn- og tengibrautum sé þetta 10 km. fyrir ofan takmörkin. Þessi mikli og ólöglegi hraði orsakar óþarfa sóun og mengun t.d. svifryksmengun yfir vetrartímann auk þess að vera yfir þeim hraða sem umferðarmannvirki eru hönnuð fyrir. Nú þegar lögreglan hefur minni tíma en áður til að fylgjast með þessu þá kemur það í hlut ábyrgra ökumanna að sjá um að halda hraðanum á þessum brautum innan og við leyfileg mörk.


Hugleiðing um brauðilm

Kona nokkur sagði frá því á vinnustað sínum að heima hjá henni væri stundum bakað brauð í brauðvél. Þá var hún spurð: En hvar er brauðvélin? Frammi í þvottahúsi? Hún kvað nei við því og spurði af hverju brauðvélin þyrfti að vera í þvottahúsinu: "Nú út af brauðfýlunni" var svarið.

Þó ég segi sjálfur frá þá finnst mér lykt af nýbökuðu brauði og kökum vera hinn besti ilmur. Hann líður um allar gáttir og þegar ég finn hann gleður það mig alltaf. Getur verið að öll lykt sem ekki kemur frá ilmefnum og þvottaefnum sé litin meira og meira hornauga. Þarf kannski að fara að stofna ilm- og lyktarvinafélagið?


Hesturinn minn heitir Flóki

En við höfum ekki sömu lifað árin eins og Blesi og ljóðmælandinn í 'orfeus og evridís' frægu kvæði Megasar af plötunni 'Á bleikum náttkjólum'. Hesturinn þessi er að verða 9 vetra gamall, er fæddur 1999 en ég er fæddur nokkru fyrr. Þetta er eini hesturinn sem ég á og ég er fyllilega sáttur við það því það er töluverð vinna að eiga hest. Maður þarf að vakna snemma á morgnana til að gefa honum hey og svo þarf að fæða hann á kvöldin líka. Síðan þarf að snyrta í kringum hann, hleypa honum út á daginn þegar gott er veður og klóra honum og klappa og skella sér á bak af og til. Þetta er allt skemmtilegt en ég vil ekki margfalda þetta með 2 hvað þá n þar sem n er heil tala stærri en 2.

Ég lít á það sem forréttindi að geta gefið mínum hesti sjálfur og annast hann daglega og þegar vel er að gáð þá þarf einn hestur töluverða athygli. Ég hef því ekki skipst á um að gefa eins og margir gera og er að þessu leyti dálítið sérvitur. Það eru fleiri hestar í hesthúsinu en af því að ég á þá ekki og aðrir hirða um þá þá sýni ég þeim minni athygli heldur en mínum hesti. Þetta finnur hesturinn minn og hann verður æfur af afbrýðisemi ef einhver hinna hestanna stillir sér upp við keðjuna þegar ég er að fara að hleypa honum eða stíufélaga hans inn í húsið.

Hingað til hefur mér fundist Flóki vera frekar lítið gefinn fyrir klappið þó hann vilji greinilega ekki að ég klappi öðrum hestum. En í dag sýndi hann mér merkileg vingjarnlegheit sem hann hefur aldrei gert áður. Ég var að moka snjó frá hesthúsinu til að hægt væri að fara með hjólbörur meðfram húsinu og hvað gerði karlinn? Hann stóð við hliðina á mér allan tímann og rak snoppuna af og til laust í mig á meðan ég mokaði. Þetta var sérlega vingjarnlegt og hann var greinilega að minna á sig og sýna mér samstöðu við moksturinn. Svona getur þetta tekið tíma. Ég eignaðist Flóka í apríl í fyrra og það er fyrst núna eftir níu mánaða samveru sem hann sýnir þessi vingjarnlegheit. Á þessum tíma hefur hann oft látið mig vita að hann sé ekki fyllilega sáttur við mig, bæði finnst honum að ég leyfi allt of mörgum hestum að vera í hesthúsinu, sem hann álítur greinilega vera sitt og honum finnst líka að hann eigi að ráða, af því hann var fyrsti hesturinn til að koma í húsið í haust. Að þessu leyti hef ég brugðist honum, að hans mati. Það er greinilegt. En sumir sættast þó það taki tíma.


Hvernig breyttust jólasveinarnir og af hverju?

Oft hef ég hugsað um þá algeru umbreytingu sem varð á gömlu íslensku jólasveinunum, Stúf, Stekkjastaur, Skyrgámi og þeim bræðrum öllum sonum Grýlu og líklega Leppalúða. 

Umbreytingu þessara karla má líkja við algera viðhorfsbyltingu eða umsnúning á lífsgildum. Þeir leggja af tröllskap sinn og fláræði Grýlu kerlingarinnar sem var eitthvert versta tröllaskass sem sögur fara af og verða þess í stað alger andstæða þess sem þeir voru áður. Þeir umbreytast í glaðlega karla sem keppast við að gleðja mann og annan en þó aðallega börnin. Hvað svo sem það var sem gerðist þá má segja að það hljóti að hafa verið eitthvað gott. Fóru þeir kannski í skóla eða var það skóli lífsins sem hafði þessi góðu áhrif? Þeir hafa að sögn verið til í mörg hundruð ár og enginn skyldi vanmeta lífsreynsluna - en það skrýtna er að það er ekki lengra síðan en á fyrri hluta síðustu aldar sem þeim bræðrum var lýst sem sísvöngum matarþjófum og hrekkjakörlum í landsfrægum jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum.

Ég hallast því að því að þeir bræðurnir hafi gengið í skóla eða að minnsta kosti farið á námskeið þar sem markmiðið með náminu hefur verið breytt viðhorf og bætt hegðun. Ef þetta er ekki raunin þá hlýt ég að hyggja að þeir hafi kynnst einhverjum sem hefur haft þessi góðu áhrif á þá.


Dagar frostrósanna

Þessa dagana hafa frostrósir myndast á þeim gluggum þar sem enn er einfalt gler og upphitun lítil svo sem í ýmsum gripahúsum. Áður fyrr mynduðust frostrósir á gluggum híbýla fólksins, svo sem á gluggum baðstofanna og er slíkt enn í manna minni. Ein heimild um það er eftirfarandi ljóð eftir föður minn Brynjólf Guðmundsson sem lengi bjó á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi. Hann er fæddur og uppalinn á bænum Kolsholtshelli í Villingaholtshreppi, og bjó þar sín fyrstu búskaparár áður en hann flutti að Galtastöðum. Þar á bæ var áður gömul baðstofa með torfþaki og glugga með einföldu gleri.

Frostrós

Ég ligg lítill drengur
í gömlu baðstofunni
horfi á kvistina
í súðinni taka á sig
margskonar myndir

Fjöll tröll og álfa
ævintýraheimur
á baðstofusúðinni

Laufblað á glugga
Ég rís upp til
að taka það af
Finn aðeins kalt gler

Rétt seinna
Fullkomin frostrós
með puttafar
á einföldu gleri

Tvöfalt gler
engin frostrós

(Desember 2002)

 

Ljóðið birtist áður á vefsetrinu vina.net: http://www.vina.net/index.php/brynjolfur/2002/12/02/frostros


Sögur af hestum

Eftir Brynjólf Guðmundsson.

Jarpur
Jarpan hest áttum við í Helli *, mjög duglegan, skapmikinn og viljugan. Hann var taminn fyrir vagn og sláttuvél. Við strákarnir töluðum um að láta þá keppa, Kol og Jarp en við létum þá aldrei gera það því við vissum að báðir vildu verða fyrstir. Oft lét ég Jarp draga sleðann í mjólkurflutningum, þá fékk hann stundum að ráða á heimleiðinni því mér þótti mjög gaman að fara hratt yfir hjarnið. Tvisvar fór ég í fjallferð og var þá með Jarp og Grána. Einu sinni á fjalli komum við seinni part dags með safnið úr Skaftholtsréttum í Skeiðaréttir. Þrír fóru í Hrunaréttir til að sækja Skeiða- og Flóafé. Þegar við komum í Skeiðaréttir fengum við þær fréttir að það væri svo margt fé úr Hrunaréttum að þeir réðu ekki við það þrír. Voru þá 5 eða 6 sendir þeim til aðstoðar. Ég var einn þeirra og fór á Jarp. Þegar við vorum staddir við Sandlæk kom Högni í Laxárdal á eftir okkur. Hann hafði verið með okkur á fjalli. Hann var á rauðum fallegum hesti, viljugum. Hann fór hratt yfir á hröðu brokki og fór fram úr öllum, en við Jarpur vorum fremstir. Högni ætlaði fram úr okkur líka. Ég gaf Jarp lausan tauminn en hann gat farið mjög hratt á brokki án þess að hlaupa upp. Við Högni vorum hlið við hlið, en alltaf var Jarpur hálslengd á undan. Við fórum hratt upp alla Sandlækjarmýri yfir Laxárbrú, en í brekkunni við Hólakot fór hestur Högna að dragast aftur úr. Þá kallaði Högni til mín og sagði: „Heyrðu Brynjólfur, eigum við ekki að stoppa, við erum orðnir svo langt á undan.“ Ég sagði það sjálfsagt. Þegar Högni fór af baki sagði hann: „Það er ekki hægt að segja að Flóamenn séu allir illa ríðandi.“

Jarpur var fljótur að hlaupa og aldrei sá ég hest sem hafði við honum. Eitt sumarkvöld var unga fólkið úr Kolsholtshverfinu að fara á íþróttaæfingu út við Hróarsholtskletta. Allir voru á hestum. Það hafði rignt um daginn og allar götur blautar. Ég var á Jarp og var með þeim fremstu. Þá kom Magnús í Flögu á fjörugum hesti og fór mikinn. Hann fór fram úr öllum en þegar kom að okkur tók Jarpur kipp og ég réði ekkert við hann. Magnús var skammt á eftir og fékk drulluna yfir sig. Ég reyndi eins og ég gat að stoppa Jarp en án árangurs. Við stoppuðum ekki fyrr en heima á hlaði í Flögu. Þegar við fórum af baki var Magnús mjög drullugur í framan. Ég sagði við Magnús: „Fyrirgefðu, ég réði ekkert við hestinn.“ Hann sagði: „Ég réði ekkert við minn heldur.“

Venja var að fara með hryssur í stóðhestagirðinguna í Yrpuholti. Stundum voru margir í hóp og var oft farið hratt yfir. Kvöld eitt var ég með í för þegar nokkuð stór hópur var á leið í girðinguna. Við áttum um einn kílómetra ófarinn að hliðinu. Þá bar þar að Sigurð í Kolsholti á bleikri hryssu sem hafði orðið fyrst á kappreiðum Sleipnis við Hróarsholtskletta helgina áður. Hann hleypti henni fram úr öllum. Þegar Sigurð bar að tók Jarpur mjög snöggan kipp og var á undan síðasta hálfa kílómetrann eða svo. Nokkrir menn voru komnir að hliðinu og þar á meðal Gestur í Hróarsholti. Þegar við stoppuðum gekk Gestur í hring um Bleiku hryssuna hjá Sigurði og sagði: „Er þetta ekki hryssan frá Haugi sem var fyrst í kappreiðunum?“ „Það er rétt.“ Mælti Sigurður. „Hún hefur ekki við vagnhestinum frá Helli!“ „Ég ætlaði ekki framúr,“ sagði Sigurður þá. „Við sáum allir að þú ætlaðir framúr“ sagði þá Gestur. Þennan hest tamdi ég með aðferð Jóns í Vatnsholti.

Blesa
Þegar ég kom að Galtastöðum 1956 var þar Rauðstjörnótt hryssa með rauðblesótt folald. Þessi hross voru komin af hrossum sem Guðmundur Ófeigsson og Erlingur Guðmundsson höfðu komið með frá Fjalli á Skeiðum. Sú blesótta var kölluð Blesa. Þegar hún var veturgamalt tryppi lenti hún á flækingi. Hún fór upp í Vorsabæjarhverfi og sama dag komst þangað hrossahópur úr Gegnishólahverfinu. Þangað var Blesa rekin með þeim hóp. Ég sá hana ekki meira þetta sumar. Um haustið sótti ég hana út að Bræðratungu í Stokkseyrarhreppi. Ég fór með gamla skjótta meri, Skjónu til að reka með henni. Við pípuhliðið í Holti stoppaði Skjóna, þefaði af því og gekk svo yfir á bitunum sem voru undir pípunum. Ég gat ekki stoppað hana því ég rak þær á undan. Blesa fór á eftir en annar afturfótur Blesu fór milli rimlanna. Hún féll niður og var föst. Þarna lá hún hreyfingarlaus. Ef hún hefði hreyft sig eitthvað þá hefði afturfóturinn brotnað. Ég flýtti mér heim að Holti, en spurning var hvort Blesa myndi liggja kyrr. Þeir Holtsbræður voru fljótir að koma, tóku með sér járnkarl og okkur tókst að rífa upp tvær pípur. Þegar þær voru lausar stóð Blesa upp, hljóp af stað og sá ekkert á henni.

Eftir þetta sumar fór Blesa alltaf á flakk. Það hélt henni engin tveggja eða þriggja strengja girðing. Hún stakk hausnum milli strengja og fór svo rólega í gegn. Þar sem girðingar lágu að lækjum eða flóðum þá óð hún bara fyrir endann. Tvö ár sótti ég hana að Litlu-Sandvík, eitt haustið að Hróarsholti. Sumarið eftir hvarf hún og ég vissi ekki fremur venju hvar hún var. Hrossaréttir voru afstaðnar og ekki kom Blesa fram. En seint í nóvember stóð hún einn morgun á bæjarhólnum. Daginn eftir gerði snjókomu með roki og frosti. Einn nágranni minn kallaði hana „vitlausu merina“, en ég sagði að hún væri ekki vitlaus heldur gáfuð. „Kallarðu þetta gáfur – þessa óþægð?!“ var spurt.

Þegar Blesa var orðin leiðitöm fór Ragnar á bak henni og reið henni eins og hún væri tamin fram og aftur um veginn. Þannig voru öll hross af þessu kyni, ljúf, góð og aldrei nein vandamál að temja þau. Ekki óþæg – heldur gáfuð.

Sprengja
Brúnskjótta hryssu kom ég með frá Helli að Galtastöðum. Hún var hálfsystir Jarps. Hún var ekki mikið tamin en þæg og viljug. Hún var með brúnu sem var hryssa undan Gáska frá Hrafnkelsstöðum sem var af Hornafjarðarkyni. Rétt eftir að ég kom með þessi hross að Galtastöðum flækti folaldið sig í gaddavír sem ég varð að klippa af henni. Hún fékk djúpan skurð frá snoppu, niður hálsinn og alla leið niður á hóf hægra megin. Ég smurði skurðinn með júgursmyrsli. Þetta var lengi að gróa en það greri vel. Eftir þetta var hún hrædd við vír alla sína ævi.

Ég byrjaði strax að temja hana. Þegar hrossin voru komin í hús strauk ég henni, tók upp á henni fæturna, klappaði henni og notaði aðferð Jóns í Vatnsholti við að róa hana. Þetta gerði ég frá því hún var folald. Ég varð alltaf að reka hrossin inn í hesthús til að ná í hana. Hún var mjög hrædd við vír og alla strengi. Ég lagði snæri á veginn og þó að öll hrossin hlypu yfir snærið þá gerði hún það ekki. Ég lagði snæri að hesthúsdyrunum og þá fór hún oft ein inn en hin hrossin hlupu yfir snærið. Ég fór ekki á bak henni inni í hesthúsi fyrr en hún var 5 vetra. Hún var lengi að róast og tamningin tók langan tíma. Ég fór ekki á bak henni úti fyrr en eftir langan tíma því þar var hún stygg. Hún sneri sér alltaf í hringi þegar ég fór á bak henni. Ég lofaði henni að snúast þangað til hún stoppaði, þá beið hún róleg þangað til ég var búinn að ná ístaðinu hinu megin en þá rauk hún af stað. Svo viljug var hún að ég réði varla við hana. Hún var oft æst og gaf frá sér soghljóð með nösunum sem ég heyrði aldrei frá nokkrum hesti. Af því hlaut hún nafnið Sprengja. Hún var stór, vel vaxin og falleg. Það kom enginn á bak henni nema ég og Erlingur. Nokkrum sinnum reiddi ég Ragnar fyrir framan mig bæjarleið. Til að ná honum á bak fór hann upp á brúsapallinn og fór á bak fyrir framan mig og hafði mikið gaman af. Þegar við komum aftur fór hann af baki á brúsapallinum.

Einu sinni mætti ég Jóni Pálssyni dýralækni á veginum. Hann stoppaði bílinn, kom út, skoðaði hana vel og vandlega, strauk henni, tók upp fæturna og sagði loks: „Viltu ekki selja mér þennan gæðing?“ Ég sagði, það er til eitt orð yfir það: „Nei“.

Sprengja varð því miður ekki gömul. Einn þurrkdag á miðju sumri fór ég fyrir hádegi upp að Selfossi. Þegar ég kom heim stóð Sprengja við hliðið upp í Dælur. Við vorum að keyra heim hey allan daginn. Þegar strákarnir fóru að sækja kýrnar sneru þeir við og komu hlaupandi til mín norður á tún og sögðu: „Hún Sprengja liggur dauð við hliðið.“ Hún var þá aðeins 15 vetra. Við grófum hana í hólinn fyrir norðan hliðið. Ég kallaði hólinn eftir það Sprengjuhól.

Eftir dauða Sprengju kom ég ekki mikið á hestbak. Mér fannst enginn hestur jafnast á við hana, átti ég þó alltaf hesta sem hægt var að koma á bak á meðan ég bjó í sveit.

* Kolsholtshelli í Villingaholtshreppi. 

Pistillinn birtist áður í vefritinu vina.net í september 2004. [1]


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband