Fimmtudagur, 2.10.2025
Brothættur veruleiki flugreksturs á Íslandi - er þörf á skýrari sýn á þjóðarhagsmuni?
Fall Play er ekki einsdæmi. Bláfugl gafst upp árið 2010, Wow hrundi 2019 og Niceair entist aðeins í rúmt ár. Þessar tilraunir til að byggja upp ný flugfélög hér á landi hafa endað á sama hátt með skyndilegri rekstrarstöðvun. Það bendir til kerfislægs veikleika: að íslenskt umhverfi styðji í raun aðeins við eitt stórt flugfélag, Icelandair, en ekki fleiri. Ef svo er, þurfum við að horfast í augu við þann veruleika og spyrja: viljum við sætta okkur við það, eða reyna að breyta leikreglunum?
Mjúkar lendingar annars staðar
Í öðrum löndum hefur þróast hefð fyrir því að flugfélög fái svigrúm til að endurskipuleggja rekstur sinn. Í Bandaríkjunum hafa risar á borð við Delta og United bjargast með gjaldþrotavörn, og í Evrópu hafa SAS og Norwegian gengið í gegnum sambærileg ferli. Þannig hefur verið hægt að halda rekstri gangandi, vernda farþega og varðveita störf á meðan lausnir eru fundnar.
Hérlendis höfum við hins vegar ítrekað séð annað mynstur: þegar fjármögnun klikkar eða lausafjárstaðan þrýtur, er félaginu lokað á augabragði. Það er skiljanlegt að smáríki ráði ekki alltaf við sömu sveiflur og stór lönd, en það vekur engu að síður spurningu: væri hægt að skapa hér úrræði sem gerðu endurskipulagningu mögulega í stað þess að allt stöðvist skyndilega?
Fjármál Play: viðvörunarbjöllur fyrir fjárfesta
Ársreikningur Play fyrir 2024 sýndi að félagið var komið í viðkvæma stöðu: eigið fé var orðið neikvætt, skuldirnar miklar og tap ársins tvöfalt meira en árið á undan. Skuldir vegna leigu á flugvélum námu hundruðum milljóna dollara og í lok árs var handbært fé aðeins til að standa undir örfáum mánuðum af rekstrarkostnaði.
Félagið benti sjálft á í áhættuskýrslu að það væri viðkvæmt fyrir eldsneytisverði, gengissveiflum og jafnvel netárásum. Þetta var því rekstur sem lifði á stöðugum fjárinnspýtingum og var í viðkvæmri stöðu gagnvart óvæntum áföllum. Fjárfestar hljóta að ganga út frá fjárfestingastefnu sinni til að vega og meta slíkar aðstæður áður en þeir leggja til nýtt fé.
Hlutverk fjárfesta
Fjárfestar nálgast verkefni með mismunandi hugsun. Sumir eru tilbúnir að taka mikla áhættu í von um háan ávinning það eru gjarnan vogunarsjóðir eða áhættufjárfestar sem stefna á skjótan hagnað. Aðrir leggja áherslu á varfærni, stöðugleika og langtímasýn virðisfjárfestar sem vilja byggja á traustum grunni.
Flugrekstur er í eðli sínu atvinnugrein þar sem óvissan er viðvarandi. Gengissveiflur, olíuverð, samkeppnisþrýstingur og traust farþega geta breytt rekstrarforsendum á örfáum vikum. Það kallar á sérlega vandað áhættumat. Play tókst að afla sér nýrrar fjármögnunar árið 2025, þrátt fyrir að ársreikningurinn 2024 hefði sýnt alvarlega veikleika. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt áhættufjárfestar sækjast stundum eftir félögum í slíkri stöðu. En þeir sem ætla sér að standa vörð um stöðugleika og langtímaverðmæti hljóta að spyrja sig: er flugrekstur, að óbreyttu, raunverulega rétti vettvangurinn fyrir þá?
Malta eða Ísland?
Eftir gjaldþrot Play blasir við sérkennileg staða: móðurfélagið á Íslandi fer í þrot en þegar þetta er skrifað gæti farið svo að dótturfélagið á Möltu héldi áfram rekstri. Hvernig stendur á því að Malta, sem er að mörgu leyti í svipaðri stöðu og Ísland sem smáríki háð ferðamönnum og samgöngum, getur boðið flugrekendum betra umhverfi en við?
Svarið liggur í markvissri stefnu. Maltversk stjórnvöld hafa ákveðið að gera landið að alþjóðlegri miðstöð flugreksturs og hafa lagað regluverk, skapað skattalega hvata og byggt upp stjórnsýslu sem þjónar atvinnugreininni með sveigjanleika. Við höfum aftur á móti látið hlutina ráðast og treyst á að markaðurinn sjái um að stilla reksturinn af með þetta reddast hugmyndafræðinni sem fellur vel að traustinu á hina altumlykjandi hönd markaðarins sem allt á að leiðrétta.
Staðsetningin sem forskot
Það sem gerir þetta enn athyglisverðara er að Ísland hefur í raun betri stöðu en Malta þegar horft er til landfræðilegra aðstæðna. Ísland liggur mitt á milli Evrópu og Norður-Ameríku og er náttúruleg tengibrú milli heimsálfa. Þessi staðsetning hefur skapað grundvöllinn fyrir viðskiptamódel Icelandair og gert landið að mikilvægu millilendingarlandi í alþjóðaflugi.
Malta hefur ekki sama forskot. Þar byggist flugrekstur fyrst og fremst á því að tengja eyjuna við Evrópu og þjónusta ferðamenn. Ísland hefur hins vegar einstaka möguleika til að verða burðarás í alþjóðlegum tengiflugum. Spurningin er því ekki hvort Ísland hafi tækifærin heldur hvort við nýtum þau. Ef við höfum ekki regluverk og umhverfi sem tryggir stöðugleika, getum við misst niður forskot sem lega landsins hefur í raun lagt okkur í hendur.
Munurinn liggur ekki í stærðinni eða mikilvægi flugsins fyrir þjóðina, heldur í því að Malta hefur tekið meðvitaða stefnu um að verja þjóðarhagsmuni. Ísland hefur aftur á móti horft upp á endurteknar skyndilegar rekstrarstöðvanir. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er því einföld en brýn: viljum við treysta blindandi á hönd markaðarins, eða læra af Möltu og móta raunsæa stefnu stjórnvalda sem tryggir traustari rekstur ekki bara í flugrekstri sem er lífæð okkar við umheiminn heldur í fleiri greinum sem keppa við ósamanburðarhæfa erlenda samkeppni?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Ferðalög, Samgöngur, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning