Íslenskan á krossgötum: Nú er lag að stökkva en ekki hrökkva

Starfsmaður lundabúðar æfir sig í íslenskum samtalsæfingum við gervigreindÍ mars síðastliðnum skrifaði ég pistil hér á blogginu undir fyrirsögninni „Staða íslenskunnar: Tími til aðgerða er runninn upp!“. Þar lýsti ég áhyggjum af því að íslenskan væri víða að víkja í daglegu lífi, sérstaklega í verslunar- og þjónustustörfum. Ég lagði þá áherslu á að vinnuveitendur beri ábyrgð á að styðja sitt fólk til að læra íslensku – það er einfaldlega hluti af samfélagslegri skyldu þeirra.

Ályktun málnefndarinnar
Nú hefur Íslensk málnefnd staðfest þessar áhyggjur í nýrri ályktun sem samþykkt var 25. september síðastliðinn. Þar segir skýrum orðum að gildandi lög um stöðu íslenskrar tungu frá 2011 séu orðin úrelt og of þröng. Þau nái aðeins til opinberra aðila en ekki atvinnulífsins, og það sé einmitt á vinnumarkaðnum sem íslenskan sé hvað veikust fyrir. Málnefndin leggur til að gildissviðið verði víkkað, að settar verði reglur um notkun erlendra tungumála í almannarými, og að ákvæði um íslensku í auglýsingum verði skýrð og gerð virk í framkvæmd.

Rödd fræðimanns
Prófessor emeritus Eiríkur Rögnvaldsson hefur nýlega tekið undir þessar áhyggjur í eigin pistlum. Hann bendir á að óþörf og ástæðulaus enskunotkun – eins og þegar dagskrá íslenskrar ráðstefnu er birt á ensku – hafi óbein áhrif á hugarfar okkar. Við verðum smám saman ónæm fyrir því að íslenskan víki, og það opnar enskunni dyr inn á fleiri svið. Hann hefur einnig varað við því að fjárframlög til íslenskukennslu innflytjenda hafi verið skorin niður, þvert á það sem þörf er á. Samkvæmt skýrslu OECD er hlutfall innflytjenda á Íslandi sem telja sig hafa sæmilega færni í íslensku það lægsta í öllum aðildarríkjum – innan við 20%. Það er alvarlegt og bendir til þess að við séum að skapa aðstæður þar sem tungumálið verður ekki lengur sameiginlegur grunnur samfélagsins.

Tækni sem nýr grundvöllur liðveislu
Á sama tíma og áskoranirnar hafa orðið greinilegri hafa tækninýjungar gert okkur kleift að bregðast við á áður óþekktan hátt. Gervigreind getur nú þegar þýtt texta, leiðrétt mál og kennt tungumál með persónulegri aðlögun sem var óhugsandi fyrir stuttu. Tungumálaöpp eru orðin hversdagsleg og þau má nýta á vinnustöðum þannig að starfsfólk æfi sig í íslensku á vinnutíma í stuttum lotum. Sjálfvirkar þýðingar og leiðréttingar hjálpa til við að byggja upp málfærni jafnóðum og fólk vinnur sín daglegu störf. Talgreining og framburðaræfingar gera fólki kleift að ná tökum á íslensku tali, og það nýjasta: gervigreindar samtalsaðstoðarmenn sem tala íslensku og geta þjónað sem æfingafélagar fyrir þá sem vilja styrkja sig í tungumálinu, jafnvel á vinnutíma. Með þessum lausnum má gera íslenskukennslu bæði ódýrari og áhrifaríkari, jafnvel þó dregið sé úr fjárveitingum. Vinnuveitendur gætu hæglega kostað áskriftir af þessum leiðum. Þetta gæti verið þeirra gullna tækifæri til að standa undir sinni ábyrgð gagnvart samfélaginu og þeim menningarheimi sem þeir sækja arð sinn til. 

Nú er lag að stökkva en ekki hrökkva
Hér blasir við stjórnvöldum málaflokkur sem snertir alla landsmenn. Að tryggja stöðu íslenskunnar er ekki aðeins menningarlegt verkefni, heldur líka félagslegt og efnahagslegt. Ef ekkert verður að gert gæti myndast gjá milli þeirra sem valda íslensku og þeirra sem ekki gera það. Við sjáum þegar merki þess: hámenntað fólk, jafnvel með sérhæfða þekkingu, vinnur almenn verkamannastörf einfaldlega vegna þess að það hefur ekki vald á íslenskunni.

Ef stjórnvöld nýta möguleika tækninnar og setja skýrari reglur um notkun tungumálsins í atvinnulífi og almannarými, má verja íslenskuna, efla samstöðu og styrkja samfélagið allt í senn.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband