Farsímasamband í dreifbýli – úrræði og lausnir

Í fréttum RÚV hefur nýverið komið fram að símafyrirtækin hafi hafið lokun á gömlu farsímakerfunum, 2G og 3G. Á mörgum svæðum hefur þSímasamband í dreifbýlietta þegar gert vart við sig: íbúar og bústaðafólk finna fyrir lakara sambandi, og sumstaðar er farsímasamband horfið að mestu þar sem áður var hægt að hringja í 112 í gegnum GSM. Fyrirtækin vísa til þess að kerfin séu úrelt, orkufrek og dýr í rekstri, og að framtíðin byggi á 4G og 5G.

Hlutverk Fjarskiptastofu
Þarna kemur til kasta Fjarskiptastofu, sem er eftirlitsaðili með fjarskiptafyrirtækjunum. Stofnunin hefur það hlutverk að úthluta tíðnum, setja reglur og fylgjast með því að þjónustan sem almenningi er boðin standist lögbundin lágmarksskilyrði. Ef neytandi telur þjónustuna ekki fullnægjandi getur hann leitað réttar síns hjá Fjarskiptastofu, sem hefur vald til að krefjast úrbóta. Fjarskiptastofa hefur jafnframt birt leiðbeiningar fyrir neytendur vegna ótryggs farnetssambands, þar sem farið er yfir helstu úrræði sem fólk getur gripið til.

Sumarbústaðir falla utan fortakslauss réttar
Í 62. gr. fjarskiptalaga segir að neytendum skuli á lögheimili eða aðsetri samkvæmt skráningu hjá Þjóðskrá Íslands tryggður aðgangur á viðráðanlegu verði að netaðgangi og símaþjónustu með tilgreindum gæðum. Rétturinn er ekki fortakslaus og getur verið takmarkaður vegna kostnaðar, landfræðilegra aðstæðna eða annars óhagræðis. Orðalag 62. greinar sýnir glöggt að alþjónustan er bundin við lögheimili og skráð aðsetur. Það þýðir að sumarbústaðir og frístundabyggðir falla ekki undir sama lagalega rétt. Ef farsímasamband hverfur þar er engin skýr lagaskylda fyrir símafyrirtækin eða Fjarskiptastofu að tryggja úrbætur.

Þetta setur þá stöðu að fólk í frístundabyggðum og ferðamenn á slíkum svæðum verða í raun að bjarga sér sjálfir, nema stjórnvöld ákveði að breyta lögunum eða ráðast í sérstakar aðgerðir. Til að tryggja öryggi og tengingar geta þó komið til greina ýmsar leiðir.

Lítil samfélagsrekin farsímanet
Ein lausnin væri að setja upp lítið farsímanet sem þjónustar aðeins afmarkað svæði, til dæmis frístundabyggð eða afskekktan dal. Þar væri komið fyrir einni eða fleiri litlum sendistöðvum sem ná yfir byggðina og tengjast stærra fjarskiptaneti í gegnum gervihnött eða örbylgjutengingu.

Netið gæti verið rekið af sveitarfélagi eða rekstrarfélagi bústaðaeigenda, á sama hátt og sameiginleg vatnsveita eða vegagerð er stundum rekin. Með samningi um reiki við stærri þjónustuaðila gætu notendur haldið áfram að nota eigin síma og venjulegar áskriftir; síminn myndi einfaldlega detta inn á litla netið líkt og þegar farið er í útlönd. Þetta fyrirkomulag er þekkt víða erlendis sem „community networks“, en væri nýjung hérlendis.

Gervihnattatengingar
Önnur leið er að hver einstaklingur eða sumarhús setji upp sína eigin gervihnattatengingu. Það getur verið með hefðbundnum gervihnattasímum eins og Iridium eða Thuraya, sem virka hvar sem er, eða með gervihnattaneti á borð við Starlink sem opnar þá á möguleika til að tengjast nettengdri talsímaþjónustu (VOIP).

Samfélagsrekið VHF-talstöðvakerfi
Önnur lausn sem gæti komið að gagni er að byggja upp sérstakt VHF-talstöðvakerfi. Slík kerfi eru víða notuð af björgunarsveitum, slökkviliði og öðrum sem þurfa öruggt samband. Þau byggjast á VHF-tíðnum og geta verið annaðhvort einföld, þar sem stöðvar tala beint saman, eða með endurvörpum sem stækka drægnina yfir stórt svæði.

Ef ljóst verður að símafyrirtækin muni ekki sinna afskekktum svæðum nægilega vel, vaknar spurning hvort sveitarfélög eða félagasamtök ættu að ráðast í að byggja upp slíkt samfélagsrekið öryggiskerfi. Með því að sækja um tíðni til Fjarskiptastofu mætti reisa VHF-net með endurvörpum sem veita íbúum og bústaðafólki samband sín á milli og möguleika á að kalla á aðstoð.

Það er þó mikilvægt að hafa í huga að bæði handstöðvar, bíltæki og endurvarpar á VHF-sviði krefjast leyfis frá Fjarskiptastofu. Aðeins tiltekin leyfislaus bönd eru undanþegin, en þau hafa takmarkaða drægni og henta ekki til öryggisnota á stórum svæðum.

Í þessu samhengi mætti tengja málið við starfsemi radíóamatöra, sem hafa bæði þekkingu og leyfi til að starfrækja VHF-búnað, og gætu orðið mikilvægir samstarfsaðilar við uppbyggingu samfélagsneta. En jafnframt mætti hugsa sér að stjórnvöld þróuðu einfaldara fyrirkomulag þar sem almenningur fengi aðgang að takmörkuðum réttindum með stuttu námskeiði. Þú þarft ekki að verða líffræðingur til að mega veiða fisk – og á sama hátt ætti ekki að þurfa að verða radíóamatör til að mega nota samfélagsrekið öryggisnet. 

Ferðaöryggispakki gæti síðan tryggt að ferðamenn sem ekki hafa aðgang að netinu fái möguleika að ná sambandi. Í því fælist að hafa leiguhandtæki tiltæk á lykilstöðum, skýrar leiðbeiningar á erlendum tungumálum, opna neyðarrás sem allir geta náð inn á, og samstarf við björgunarsveitir til að kynna kerfið sem hluta af öryggisinnviðum svæðisins.

Samanburður á kostnaði
Þegar litið er á fjárhagslegu hliðina er ljóst að litil samfélagsrekin farsímanet og samfélagsrekin VHF-talstöðvakerfi eru ólíkir kostir.

Litlu farsímanetin bjóða meiri möguleika – notendur geta haldið áfram að nota eigin síma og fá jafnvel gagnatengingar. En til þess þarf dýrari innviði: sendistöðvar, tengingar við meginfjarskiptanetið, leyfi og reglulegt viðhald. Slíkt er því mun meiri fjárfesting fyrir lítið samfélag.

VHF-talstöðvakerfi eru aftur á móti einfaldari í uppsetningu og rekstri. Endurvarpar og talstöðvar kosta minna, orkunotkun er lág og kerfið er traust fyrir tal og neyðarsamband, þó það bjóði ekki upp á breiðbandsnet eða hefðbundin farsímasímtöl. Þau gætu því verið raunhæfari leið fyrir mörg samfélög sem vilja tryggja grunnöryggi með hóflegum kostnaði. Til að þessi möguleiki geti raungerst hérlendis þarf að líkindum pólitíska forystu sem gæti mótað stefnuna á þessu sviði. 

Samantekt
Lokun 2G og 3G er óumflýjanleg þróun sem hefur þegar áhrif á fólk í dreifbýli. Fjarskiptalögin tryggja rétt til alþjónustu á lögheimilum og skráðum aðsetrum (62. gr.), en frístundabyggðir falla hins vegar utan fortakslauss réttar. Þau svæði þurfa því að finna sínar eigin lausnir ef samband er lélegt eða ekki til staðar. Lítil samfélagsrekin farsímanet með reiki, einkatengdar gervihnattalausnir eins og Starlink, Iridium eða Thuraya, og samfélagsrekin VHF-talstöðvakerfi með ferðaöryggispakka eru meðal raunhæfra valkosta en til að það geti raungerst þarf pólitíska forystu. Með slíkri blöndu af staðbundnum úrræðum og langtímastefnu er hægt að stuðla að öruggari fjarskiptum.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband