Föstudagur, 26.9.2025
Stafrænt útvarp á flugi tíðindi af alþjóðlegu tækniráðstefnunni í Amsterdam
Í byrjun september var hin árlega IBC tækniráðstefna haldin í Amsterdam. Hún er ein stærsta ráðstefna heims um útvarp, sjónvarp, miðlunartækni og stafrænar lausnir. Þar koma saman framleiðendur, tæknifyrirtæki, fjölmiðlar og rannsóknaraðilar til að kynna nýjustu þróun í þessum geira. Meðlimir DRM samtakanna komu þar fram með fjölda nýjunga sem sýna að stafrænt útvarp er komið á nýtt stig, bæði tæknilega og hvað varðar útbreiðslu á heimsvísu.
Kína stígur stórt skref
Mesta athygli vakti að Kína hefur nú formlega tekið DRM upp sem þjóðarstaðal á mið- og stuttbylgjum. Jafnframt er unnið að reglum um að DRM verði skylda í öllum nýjum bílum. Með þessu stígur næst fjölmennasta ríki heims stórt skref í átt að stafrænu útvarpi sem getur náð til allra landsmanna. Indland, fjölmennasta ríki heims er það land sem lengst er komið í innleiðingu á DRM.
Fyrsti fjölrásasendirinn kynntur
Á sýningunni frumsýndu þýsku fyrirtækin RFmondial og Plisch fyrsta fjölrása DRM sendinn á VHF bandi III. Hann getur sent út fimmtán aðskildar gagnablokkir samtímis, sem jafngildir allt að 45 hljóðrásum og fjölmiðlaefni á borð við textaþjónustuna Journaline. Þetta er hagkvæm og orkumeðvituð lausn sem hentar stórborgum í löndum á borð við Indónesíu.
Snjallari móttakarar og forrit
Á sviði móttakara og hugbúnaðar var kynnt nýjasta útgáfan af ContentServer hugbúnaði þýsku stofnunarinnar Fraunhofer, sem gerir útvarpsstöðvum auðveldara að senda bæði hljóð og myndrænt efni. Breska fyrrtækið CML Micro kynnti nýja útgáfu af DRM1000 móduleiningunni sem er nú í fjöldaframleiðslu á Indlandi. Þá komu fram lausnir sem styðja bæði DRM og DAB+, meðal annars í bílaviðtækjum, borðtækjum og snjallsímaforritum. Starwaves, sem hefur starfsemi bæði í Sviss og Þýskalandi setti á markað nýtt Android forrit sem sameinar báða staðlana og býður upp á allar helstu þjónustur, þar á meðal neyðarviðvaranir og myndflutning.
Útvarp með gæðaeftirliti og myndum
Eftirlit með gæðum og útbreiðslu DRM útvarps verður nú auðveldara með nýjum lausnum frá fyrirtækjunum Encompass (bandarískt), Bridge Tech (norskt) og NewGlee (kínverskt). Þá vakti sérstaka athygli tilraun Starwaves þar sem sýnt var fram á hvernig DRM getur, með nýjum kóðunaraðferðum, flutt einfaldar myndir í rauntíma yfir FM og jafnvel AM tíðnissviðin. Þetta gefur möguleika á að miðla myndrænum leiðbeiningum og fræðslu samhliða hljóði og texta.
Pakistan og Nígería vakna til lífsins
Frá öðrum heimshlutum bárust einnig fréttir af vaxandi notkun DRM. Pakistan hefur samþykkt að taka upp DRM á öllum tíðnisviðum og vinnur nú að stigvaxandi innleiðingu. Í Nígeríu hefur verið ákveðið að endurræsa Voice of Nigeria með öflugum stuttbylgjusendum, fyrst á hliðrænu AM en síðar á DRM. Afríka fær nú sitt eigið fréttabréf frá DRM samtökunum sem kemur út ársfjórðungslega. Þá hefur verið tilkynnt að næsti aðalfundur DRM verði í Jakarta í Indónesíu í mars 2026.
DRM er tilbúið að bæta líf hlustenda
Formaður DRM samtakanna, Ruxandra Obreja, sagði að IBC 2025 hefði markað tímamót þar sem tæknin sýndi raunhæfar lausnir á sviðum eins og orkusparnaði, heildstæðum útvarpslausnum, neyðarviðvörunum og fjarkennslu. Hún benti á að framfarirnar í Kína, Indlandi, Indónesíu, Pakistan og víða í Afríku sýndu að DRM væri betur í stakk búið en nokkru sinni áður til að efla útvarp sem þjónar samfélaginu í heild.
Þegar litið er til þess að Indland, Kína, Indónesía og Pakistan eru samanlagt heimkynni um 3,3 milljarða manna, eða um 41% mannkyns, verður ljóst að innleiðing DRM í þessum löndum hefur áhrif sem ná langt út fyrir landamæri þeirra sjálfra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)