"Þetta eru ekki ljón í búri“ - Stærra vandamál en það sem birtist í fangelsunum

KaffibolliÍ gær sýndi Kveikur okkur óhugnanlega mynd af geðsjúkum föngum sem sitja einangraðir dögum, vikum og jafnvel mánuðum saman. Þessi umfjöllun lýsir í raun hluta af stærra vandamáli – fólki sem er í fangelsum en líka þeim sem eru úti í samfélaginu, án refsiverðra afbrota, en samt fast í vítahring ranghugmynda, einangrunar og versnandi andlegrar heilsu. Þetta fólk er hvorki „nógu veikt“ til að vera nauðungarvistað né „nógu heilbrigt“ til að halda uppi eðlilegu lífi. Margir í þessum hópi kenna sér einskis meins; þeir sjá sig ekki sem sjúka, heldur aðra sem tortryggilega eða fjandsamlega.

Kerfin sem tala sitt eigið tungumál en tala ekki saman
Þessi hópur fellur milli kerfa sem tala hvert sitt tungumál og bera sameiginlega enga ábyrgð. Heilsugæslan, félagsþjónustan, lögreglan og geðsviðið eru allt velviljuð kerfi – en í samtvinnuðu samfélagi verða þau eins og eyjar. Þar er fólk sent á milli, í sífellu, þar til ekkert tekur við. Í stað samfellds stuðnings verða til skammtímalausnir sem fjara út áður en þær ná að virka. Og þó allir séu af vilja gerðir, þá er það það lítils virði ef  frumkvæðið kemur ekki frá einstaklingnum sjálfum. Þeir sem kenna sér ekki meins óska ekki eftir hjálp – og þannig verður kerfið að bíða eftir kallinu sem aldrei kemur.

Þegar vanlíðanin magnast
Á meðan eykst vanlíðanin. Svefninn verður óreglulegur, matarlystin hverfur, félagslífið dofnar og hegðunin verður æ furðulegri. Tortryggnin tekur við og smám saman verða ranghugmyndirnar sterkari. Þá verða atvikin sem ytri heimurinn tekur eftir: atvinnumissir, samskiptaerfiðleikar við nágranna, skrítnar kvartanir, óvenjulegar færslur á netinu sem fáir skilja eða óvæntar handtökur sem vara stutt. Kerfið og aðstandendur horfa á þetta í vaxandi vanmætti – en hafa takmörkuð úrræði til að grípa inn. 

Húsnæðið sem fyrsta viðvörun
Oft brýst þetta fyrst út í næsta nágrenni. Fólk missir tök á daglegri umhirðu, á samskiptum við nágranna, á greiðslum og reglufestu sem fylgir sameign. Þá taka við húsfélög, fasteignaeigendur og loks félagsþjónustan, en þá er tjónið þegar orðið. Það er ekki sjaldgæft að einmitt þessi hópur verði fyrst fyrir áhrifum 55. greinar laga um fjöleignahús, þar sem fólki er vísað úr fjöleignarhúsum vegna truflana eða óreglu því aðrir íbúar hafa rétt á að setja mörk. Þá tekur heimilisleysið við hjá mörgum, eða einhver vandræðaúrræði því á þessu sviði er í raun enga opinbera hjálp að fá því þegar fólk getur ekki lengur búið í fjöleignahúsum þá er harla fátt sem tekur við. Húsnæði og úrræði félagsþjónustunnar er flest í þessum geira og smáhýsin sem í boði eru, eru alltof fá.

Brú milli heima
Það sem vantar er brúin á milli fullrar heilbrigðisþjónustu og úrræðaleysisins. Við þurfum lítil, þverfagleg teymi sem geta fylgt því eftir í þrjá mánuði eða lengur, til dæmis þegar einstaklingur hefur verið handtekinn án þess að vera nema sólarhring inni í hvert skipti og geðdeild er búin að hafna nauðungarvistun þó greining liggi fyrir um ranghugmyndir. Einn tengilið, málstjóra sem ber ábyrgð. Þjónustu sem byggist á einföldu sambandi, tíðum en stuttum samtölum, áætlun sem heldur áfram. Það þarf að grípa inn áður en ranghugmyndirnar fara að hafa alvarleg áhrif á hegðunina.

Úrræði fyrir aðstandendur
Á sama tíma þarf að bjóða upp á úrræði fyrir aðstandendur. Þeir þurfa ekki aðeins ráðgjöf heldur líka andrými og stuðning. En því er ekki til að dreifa ef einstaklingurinn sem vandinn snýst um er kominn á lögaldur, þá verður kerfið að fylgja lögum og passa uppá að aðstandendur fái engar upplýsingar eins og staðan er núna. 

En jafnframt er nauðsynlegt að aðstandendur setji skýr mörk um hvað sé boðleg hegðun – hvernig svo sem það er gert. Umhyggja og samkennd verða að fara saman við vernd eigin lífsrýmis og virðingu fyrir sjálfum sér. Annars getur hjálpin breyst í meðvirkni sem endar með því að allir brenna út. Að segja „hingað og ekki lengra“ er ekki einstrengingsháttur, útilokun eða sniðganga, heldur hluti af heilbrigðu sambandi. Það er ekki merki um veikleika að leita hjálpar eða að draga línu, heldur vitund um eigin mörk – því enginn getur borið slíka ábyrgð einn.

Réttir fólk sig af sjálft?
Það er í raun það sem kerfið býður upp á í dag: að fólk rétti sig af sjálft – án samfellds stuðnings, án þess að neinn leiði það til baka inn í raunveruleikann. Stundum gerist það. Ef veikindin eru afleiðing ofálags, kvíða eða langvarandi streitu, getur næði – friður, reglusemi og einfaldleiki – gert kraftaverk. Þá fær taugakerfið hvíld og einstaklingurinn getur smám saman fundið jafnvægi.

Í sumum tilvikum fléttast veikindin þó saman við neyslu þannig að enginn veit lengur hvort kom á undan. Eins og einn viðmælandinn orðaði það í Kveik: „Og svo er svo oft erfitt að segja hvort kom á undan, eggið eða hænan. Var hann byrjaður að finna fyrir geðsjúkdómnum áður eða kom hann eftir neyslu?“ Sumir leita í áfengi eða önnur vímuefni til að lina kvíða, róa svefn eða deyfa sársauka sem átti sér upphaf í andlegum veikindum. Aðrir þróa geðræn einkenni eftir langvarandi neyslu – og stundum verður þetta vítahringur.

Ef slíkt fólk kemst í umhverfi þar sem það fær næði og frið sem það hefur lengi skort, án aðgengis að vímuefnum og með skýra daglega rútínu, geta orðið undraverðar breytingar. Þegar efnin hætta að stýra taugakerfinu og líkaminn fær tíma til að jafna sig, koma stundum í ljós rætur vandans – og þá fyrst verður hægt að vinna með hann. En það þarf að byggja upp skipulag, næringu, reglubundinn svefn og mannlega nærveru. Sumir ná að rétta sig af sjálfir – en aðeins ef þeir eru í friði og ekki lengur einir. Friðurinn læknar líkamann, en tengslin lækna hugann.

Við hin: nærvera sem skiptir máli
En það er líka rétt að segja hlutina eins og þeir eru: það getur verið með eindæmum erfitt að nálgast fólk í þessum aðstæðum. Þeir sem eru haldnir tortryggni eða ranghugmyndum bregðast oft við eins og sá sem vill hjálpa sé óvinur, eftirlitsmaður eða jafnvel hluti af því sem þeir óttast og geta því verið ógnandi. Það krefst þolinmæði, einlægni og nærgætni að halda tengslum við slíkan einstakling. Stundum þarf að nálgast eftir krókaleiðum – með því að sýna umhyggju í verki fremur en orðum. Aðstoð sem er ekki boðin sem hjálp heldur einfaldlega sem nærvera.

Það er ekki alltaf hægt að bjarga, en ef hægt að vera til staðar þá nægir það stundum – að viðkomandi finni að hann er ekki alveg einn í veröldinni. Það er þar sem vonin kviknar aftur, jafnvel þegar allt annað hefur brugðist.

Niðurlag
Þegar maður les sögurnar sem Kveikur sýndi, verður ljóst að fangaverðirnir eru ekki að tala um glæpamenn heldur um veikburða manneskjur sem aldrei hefðu átt að lenda í þessum aðstæðum. En þetta er aðeins sá hluti vandans sem stundum kemur upp á yfirborðið. Utan fangelsanna er fjöldi fólks sem er ómeðvitað að fjarlægjast raunveruleikann á meðan enginn hefur tíma til að halda í hönd þess.

Við getum breytt þessu ef við viljum. Með því að lækka þröskuldinn fyrir hjálp, samþætta heilbrigðis- og félagsþjónustu og taka ábyrgð sem samfélag. Það kostar minna að bjóða mannlega nærveru en að loka fólk inni. Það krefst aðeins viljans til að sjá manneskju í stað vandamáls. „Þetta eru ekki ljón í búri“. Þetta eru systkin okkar, börn, foreldrar og vinir. Og við getum hagað kerfinu eins og við viljum hafa það.


Bloggfærslur 8. október 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband