Færsluflokkur: Skólamál
Laugardagur, 22.5.2010
Sköpunarkrafturinn býr gjarnan í fjölbreytninni
Í umræðu um sameiningu háskóla kom það sjónarmið nýlega fram að engin rök væru fyrir því að reka sjö háskóla á Íslandi. Eflaust er rétt að mikið má hagræða á þessu sviði en hinu er vart hægt að mæla mót að í fjölbreyttri háskólaflóru síðastliðinna ára hafa ýmsar þarfar og löngu tímabærar nýjungar litið dagsins ljós. Sem dæmi má nefna öfluga fjarkennslu Háskólans á Akureyri og öflugt frumkvöðlastarf Háskólans í Reykjavík á sviði tölvunarfræða.
Með þessum orðum er ekki á nokkurn hátt verið að gera lítið úr starfi Háskóla Íslands á sviði tölvunarfræði eða fjarkennslu á árum áður, aðeins að benda á að þegar minni sjálfstæðar stjórnunareiningar líta dagsins ljós að þá verða áherslur stjórnenda þeirra, forgangsröðun og framtíðarsýn meira ráðandi þættir í starfseminni þegar leitast er við að skapa stofnuninni sérstöðu og sóknarfæri.
Ég minnist þess til dæmis að þegar ég byrjaði að læra tölvunarfræði haustið '84 þá fengu tölvunarfræðingar líklega 3000 króna tölvukvóta á önn en viðskiptafræðingar 20.000! Aðgangurinn var að VAX tölvu Reiknistofnunar og með þessum gjöldum átti að tryggja að tölvukosturinn fengi næga endurnýjun. Það lá því í augum uppi að tölvufræðideildin bjó við fjárskort og aðstöðuleysi ef miðað var við aðrar deildir. Um stórhug og dugnað stjórnenda hennar efast þó enginn og mér er efst í huga þakklæti þegar ég hugsa til þeirra og þeirrar baráttu sem þeir hljóta að hafa háð fyrir deildina innan Háskólans.
Þegar stórar einingar móta sér framtíðarsýn má búast við að það sé meirihlutinn sem ráði og valdið sé fjær þeim sem hafa faglega sýn á hlutina. Þegar heildarhagsmunir eru vegnir og metnir getur ýmsum þótt sjálfsagt eða skynsamlegt að fórna ýmsum metnaðarfullum en dýrum vaxtarbroddum.
Í þessu máli þyrfti að athuga hvort hægt væri að sameina skólana en um leið efla sérstöðu hverrar deildar og gefa þeim svigrúm, færi og frelsi til að móta sjálfstæða framtíðarsýn og stefnu.
Skólamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 21.3.2009
Til hamingju Hash Collision!
Liðið Hash Collision sigraði í dag í alfa-deild forritunarkeppni framhaldsskólanna. Liðið skipa þeir Jónatan Óskar Nilsson og Sigurður Fannar Vilhelmsson nemendur í FSu á Selfossi og Gabríel A. Pétursson nemandi í FSn í Grundarfirði. Þetta er glæsilegur árangur hjá þeim félögum ekki síst vegna þess að þetta árið var metþátttaka í keppninni.
Heimild: www.forritun.is
Skólamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 12.12.2008
Um tillögur og aðgerðaráætlun íslenskrar málnefndar
Þetta [að Windows sé á ensku] er gerólíkt því sem gerist í flestum
grannlöndum okkar þar sem almennir tölvunotendur nota undantekningarlítið flestan hugbúnað á móðurmáli sínu. [2, bls. 48]
Ég leyfi mér að efast um að þetta sé nákvæmt stöðumat hjá ÍM hvað Grænland eða Færeyjar varðar sem eru okkar næstu grannlönd. Hvað varðar fjarlægari grannlönd á þetta trúlega betur við en þó ef orðinu "algengan" er skotið inn milli orðanna "flestan" og "hugbúnað" og lýsingarorðin "gerólíkt" og "undantekningarlítið" eru felld niður eða lágstemmdari orð sett í þeirra stað. Flóra þess hugbúnaðar sem í boði er er svo mikil og fjölbreytt að hæpið er að ætla að almennir tölvunotendur geti undantekningarlítið notað flestan hugbúnað eða vefþjónustur á móðurmáli sínu. Það má aftur á móti segja að almennir og útbreiddir hugbúnaðarpakkar sem komnir eru í mikla dreifingu bjóða yfirleitt upp á þýðingar og val á tungumálum. Það er því ekki fráleitt og að gefa sér sem forsendu að ætla að stýrikerfi og algengur hugbúnaður sé á tungumáli viðkomandi þjóða, en þegar kemur út fyrir algengustu forrit minnka líkurnar á að hægt sé að tryggja að notendur fái forrit á sinni þjóðtungu. Að mínu mati þyrfti því að umorða stöðumat ÍM til að fyrirbyggja misskilning á fyrrgreindan hátt. Í framhaldinu setur ÍM svo fram eftirfarandi markmið:
Að íslensk tunga verði nothæf - og notuð - á öllum þeim sviðum innan tölvu- og upplýsingatækninnar sem varða daglegt líf almennings.
Þetta er hægt að taka undir en í framhaldinu setur ÍM fram aðgerðaáætlun í nokkrum liðum. Fyrsta atriði í aðgerðaráætlun hennar sem hún leggur til við Menntamálaráðuneytið er:
Að allur almennur notendahugbúnaður í íslensku skólakerfi, frá leikskólum til háskóla, verði á íslensku innan þriggja ára.
Ef þessi tillaga til aðgerðar verður sett á lagafrumvarps-færiband stjórnarinnar sem er afkastamikið og verður orðið að lögum innan skamms tíma óbreytt þá er má ætla að það geti sett ráðamenn skólanna í nokkurn vanda. Ef það verður ólöglegt að þrem árum liðnum að setja upp almennan hugbúnað sem ekki er á íslensku allt frá leikskólum upp í háskóla er líklegt að það verði ekki gert. Starfsmenn skólanna munu ekki hætta á að setja upp óþýdd forrit af ótta við að þeir séu með því að fremja lögbrot. Þetta kemur til af því að orðið "almennt" er nokkuð teygjanlegt og erfitt er að halda því fram að einhver forrit séu ekki almenn. Þetta mun þá gilda jafnt um hin ýmsu "almennu" hjálparforrit í tækni og raungreinum sem eru bæði mörg og fjölbreytt sem og ýmis "almenn" sérforrit iðngreina. Þetta eru "almenn" forrit sem tiltölulega fáir nota en þau eru þrátt fyrir það nauðsynleg kennslutæki til að kynna nýjustu tækni fyrir nemendum. Augu tunguvarðanna eru bæði mörg og árvökul og því gætu komið upp árekstrar ef erlendu orði sést bregða fyrir. Jafnvel þó ríkisstjórnin myndi ákveða að koma á fót öflugu þýðingarteymi, sem er raunhæft til að standa við metnaðarfullan viljann sem tillögurnar endurspegla og þýða flest þessi almennu forrit, þá er ekki sjálfgefið að þýðingarteymið myndi fá nauðsynlegt fé til verkefnanna eða þá geta brugðist nógu hratt við. Sér í lagi er nærtækt að ætla þetta í ljósi nýjustu fjárlaga. Þó stjórnvöld ætli sér að styrkja mannaflsfrekar framkvæmdir þá er ólíklegt að hún styrki þýðingarvinnu, jafnvel þó sú vinna sé ekki síður mannaflsfrek heldur en malbikunarvinna eða vegagerð. Reynslan hefur sýnt það að þegar íslenskir stjórnmálamenn tala um framkvæmdir þá þýðir það oftast að átt er við verklegar framkvæmdir svo sem vegagerð eða steypuvinnu af einhverju tagi.
Hið opinbera getur vissulega komið á laggirnar þýðingarteymi ef viljinn er fyrir hendi. Hægt væri að ráða verktaka eða ganga til samninga við sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig á þessu sviði eða fjölga í starfsliði ráðuneytisins allt eftir því hvernig hinn pólitíski vindur blæs. Þannig væri hægt að þýða algengustu og útbreiddustu forritin og þau sem flestir eru að nota í skólunum. Þýðingarteymi af þessu tagi er reyndar tímabært. Nú þegar eru dæmi um að aðilar innan skólakerfisins hafi sótt um styrki til þýðingar á mikið notuðum forritum, sumir hafa fengið styrk en aðrir fengið synjun. Hér væri hægt að gera betur og von mín er að metnaðarfull aðgerðaráætlun ÍM verði ekki til þess að leggja hömlur á skólamenn eins og stefnir í ef hún verður að lögum óbreytt heldur til þess að ráðuneyti menntamála og fjármála taki sjálf sinnaskiptum. Bæði er raunæft að þýða seldan sem og opinn hugbúnað en þar eru miklir möguleikar því margir hugbúnaðarpakkar sem dreift er eru með opnu leyfi og bíða þess eins að vera þýddir en eru samt ekki til á íslensku því framkvæmdin hefur hingað til eingöngu hvílt á herðum áhugamanna sem sjaldnast hafa fengið nokkurn pening fyrir þýðingar sínar. Slíkt framtak er bæði brýnt og þarft og í samhljómi við stefnu stjórnvalda um opinn hugbúnað sem sjá má hér. [1]
Afleiðingar af því að búa við strangan lagabókstaf hvað forrit í skólum varðar en ónógar fjárheimildir til þýðingarverkefna er samt ástand sem gæti varað lengi og haft mótandi áhrif svo árum skiptir. Þetta hefði kannski ekki svo alvarlegar afleiðingar í leik- eða grunnskólum en í framhalds- og háskólum er hætt við að þetta gæti sett þróun og rannsóknum stólinn fyrir dyrnar. Ef starfsmenn skólanna sjá fram á minnstu hættu á áminningum í starfi eða jafnvel dómum og sektargreiðslum stofnana sinna fyrir að setja upp forrit sem talin eru nauðsynleg en ekki á íslensku þá er nærtækt að ætla að ýmis góð en óþýdd forrit verði hvorki sett upp né notuð.
[1] Stefna ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið 2008-2012 á pdf.formi : http://www.forsaetisraduneyti.is/media/frettamyndir/NETRIKID_ISLAND_stefnuskra.pdf
[2] Íslenska til alls : tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu: http://bella.mrn.stjr.is/utgafur/islenska_til_alls.pdf
Skólamál | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)