Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Er frægð Jackson 5 hópsins hérlendis ofmetin?

Óvænt fráfall Michaels Jackson var reiðarslag fyrir tónlistarheiminn og aðdáendur hans. Hæfileikar hans voru miklir og framinn glæstur þrátt fyrir ýmis sérviskuleg uppátæki söngvarans.

Mér hefur í þessu sambandi fundist nokkuð mikið vera gert úr frægð Jackson 5 hópsins og í því sambandi rétt að taka fram að þá er líklega verið að tala um frægð þeirra í Bandaríkjunum þó það sé ekki sérstaklega tekið fram. Þetta gæti valdið nokkrum misskilningi hjá þeim sem muna ekki vel eftir 8. áratugnum eða eru fæddir á þeim árum.  Ég minnist þess nefnilega ekki að hafa heyrt minnst á Jackson 5 hópinn fyrr en eftir að Michael Jackson sló rækilega í gegn með sólóferli sínum um og eftir 1980. 

Sönghópur sem sló aftur á móti í gegn hér á landi var Osmond fjölskyldan. Þetta var nokkuð áþekkur hópur og Jackson fjölskyldan og sumir litu á þá sem keppinauta þó svo virðist sem vinátta hafi einkennt samskipti þeirra. eins og þessi tengill bendir til.  Báðir voru hóparnir stórir bandarískir systkinahópar, sprottnir upp úr trúarlegum jarðvegi, í rauninni ekki svo ólíkir hinni kaþólsku og austurrísk-bandarísku Trapp fjölskyldu sem er fyrirmynd persóna Söngvaseiðs. Móðir Jackson systkinanna var/er (?) vottur Jehóva og ól börnin skv. þeirra venjum, en Osmond fjölskyldan er í Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu, betur þekktri sem Mormónasöfnuðinum. 

Ég minnist þess sérstaklega t.d. að sumarið 1973 var lagið Long Haired Lover from Liverpool  með Little Jimmy Osmond vinsælt og fékk mikla spilun í óskalagaþáttum útvarpsstöðvarinnar Útvarps Reykjavík, sem núna er betur þekkt sem Rás-1. Þá var þetta eina útvarpsstöðin sem útvarpaði á íslensku og var hún alltaf kölluð Útvarpið. Lagið ásamt fleiri lögum sem hljómaði þetta sólríka sumar er mér minnisstætt því þá byggðu foreldrar mínir fjós á Galtastöðum og útvarpið var haft í gangi á meðan við unnum að byggingunni ásamt duglega vinnuflokknum hans Guðna í Kirkjulækjarkoti.

Önnur sumur var ekki hlustað jafn mikið á útvarp því þá var lítið um að útvarpstæki væru í traktorum og reyndar ekki mikið um traktora með húsi. Rosasumrin þegar rigndi gafst meiri tími til að hlusta og einnig á hljómplötur. Eitt slíkt sumar er t.d. rosasumarið 1975 þegar Pink Floyd, Melanie og Simon & Garfunkel urðu fjölskylduvinir, en Erlingur gat keypt þessar og ýmsar fleiri plötur eftir að hann fór á sjóinn. Hann kom með þær heim að Galtastöðum og þær voru nánast spilaðar í gegn rigningarsumrin sem urðu á Suðurlandi um miðbik áratugarins. 

Annar svona sönghópur var skáldaður í kringum sjónvarpsþáttaröð og hét Partridge fjölskyldan. Í henni var m.a. þekktur söngvari David Cassidy. Þessi sjónvarpsþáttaröð var sýnd hérlendis í sjónvarpsstöðinni Sjónvarpinu, núna þekktri sem Ríkissjónvarpinu, sem þá var eina íslenska sjónvarpsstöðin hérlendis.

Hvort það var skortur minn á tíma til hlustunar eða hugsanlega lítil spilun á Jackson 5 í ríkisfjölmiðlunum á fyrri hluta 8. áratugarins sem olli vanþekkingu minni á Jackson 5 þangað til eftir 1980 veit ég ekki, en mér finnst nauðsynlegt að halda þessum punkti til haga. Hafa ber í huga að útgáfufyrirtæki Jackson fjölskyldunnar var öflugt og það, ásamt síðari útgáfum Michaels Jackson hefur að líkindum ekki gert minna úr frægð fjölskyldubandsins á þessum árum en efni stóðu til. Ég tek fram að ég hlustaði ekki bara á Útvarpið á þessum árum heldur einnig Kanaútvarpið sem og Radio Luxembourg sjá þessa færslu

Þó ég segi þetta þá er ég ekki að halda því fram að Jackson 5 hópurinn hafi verið óþekktur hérlendis. Líklegt er að hljómplötur með þeim hafi borist hingað þrátt fyrir að meira hafi borið á öðrum áþekkum fjölskyldusönghópum. Hugsanlega hefur hópurinn verið þekktur meðal tónlistaráhugamanna sem og efnameiri einstaklinga sem gátu leyft sér þann munað að kaupa hljómplötur af áhuga einum saman yfir lengra tímabil.  Einnig getur verið að hópurinn hafi fengið spilun en bara ekki slegið í gegn í óskalagaþáttum á borð við þætti Jóns B. Gunnlaugssonar Eftir hádegið*, Óskalögum sjómanna, Lögum unga fólksins eða Óskalögum sjúklinga. 

 

* Mig minnir að þetta hafi verið nafn þáttarins. Hann var geysivinsæll en ég finn engar heimildir um hann. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband