Gömul húsgangsvísa úr Villingaholtshreppi

Í Flóanum, sunnlensku lágsveitunum finnast ýmsar gamlar heimildir og athyglisverð fróðleiksbrot í munnlegri geymd sem skaði væri að glata að fullu og öllu. Eitt þeirra er vísa þessi frá fyrri tíð:

Sigga kerling sett var út af sakramenti
tíu þó hún tíkum hlynnti
en tíðagerðum ekki sinnti.

Sigga þessi á að hafa búið á býlinu Borg sunnan til í holtinu í Villingaholti. Þetta býli er nú löngu komið í eyði og líklega lítil ummerki eftir það á yfirborði jarðar. Gaman væri að fá viðbrögð við því hvort lesendur kannast við vísuna, eyðibýlið sem hér er nefnt eða hugsanlega frásagnir eða fleiri vísubrot af Siggu þessari.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Mætur hef ég af kveðskap af þessu tagi. Hér þykir mér vel kveðið! Ekki þekki ég til Siggu þessarar. Langafi minn fluttist vestur yfir heiði fyrir hálfri annarri öld en mjög lengi áður voru ættir mínar í Flóanum og víða um Suðurland. Þannig er ég tíundi maður í beinan karllegg frá séra Jóni Egilssyni annálaritara í Hrepphólum, bróður séra Ólafs í Ofanleiti í Vestmannaeyjum, þess er herleiddur var - ef hvarvetna er rétt feðrað ...

Hlynur Þór Magnússon, 2.6.2007 kl. 09:07

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið Hlynur. Já, þessi fróðleikur er oft skemmtilegur og hann getur líka varpað dálitlu ljósbroti á samfélagið sem var. Mig langar í því sambandi að benda áhugasömum á að fræðimaðurinn og fyrrum bóndinn Helgi Ívarsson frá Hólum í Stokkseyrarhreppi hefur ritað sérlega áhugaverða og skemmtilega pistla með þjóðlegum fróðleik sem tengist lágsveitum Árnessýslu í Sunnlenska fréttablaðið núna undanfarin misseri. Þessir pistlar hafa ekki birst áður eða annars staðar svo ég viti.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 2.6.2007 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband