Skotvopnalöggjöfina þarf að herða til muna

Mikil umræða hefur átt sér stað um skotvopnalöggjöfina í kjölfar skelfilegra atvika sem orðið hafa erlendis. Í umræðunni hér heima hafa sumir farið mikinn við að gagnrýna ástandið Vestanhafs en hvernig er staðan í raun og veru hérlendis? Innanríkisráðherra hefur látið hafa eftir sér að málið sé í skoðun og líklega er nýtt frumvarp í smíðum ef marka má fréttir en gengur það nógu langt? Nýlegt atvik þar sem strokufangi komst auðveldlega yfir hættulegan riffil sem geymdur var í sumarbústað sýnir svo ekki verður um villst að hér þarf miklu að breyta. Fleiri dæmi væri hægt að nefna í þessu sambandi. 

Skylda þyrfti eigendur skotvopna til að geyma vopn sín í byssuskáp. Þeir gætu sem best átt þessa skápa saman til að komast hjá miklum útgjöldum og hugsanlega fengið að vista þá annars staðar en á heimilum sínum. Markmiðið væri að öll skotvopn væru í læstum byssuskápum og skotfærin í öðrum jafn öruggum læstum hirslum. Að því búnu þyrfti að koma á reglulegu eftirliti með því að farið væri eftir reglum en sem stendur er ekkert slíkt eftirlit. Það ætti þó enginn að velkjast í vafa að slíkt eftirlit á fullan rétt á sér eins og t.d. bifreiðaeftirlit eða heilbrigðiseftirlit. Þetta eftirlit þyrfti að lögbinda. Þeir sem ekki færu eftir reglunum myndu missa byssuleyfið og yrðu að skila inn sínum vopnum strax við fyrsta brot. 

Samhliða þessu þyrfti að auka umræðu um ofbeldi í afþreyingariðnaði svo sem kvikmyndum og tölvuleikjum og fara fram á að áhrif þessa efnis á samfélagið og neytendur verði rannsakað. Að baki efnisins standa öflugir aðilar sem hagnast að líkindum verulega á því að sýna gróft ofbeldi. Þetta er iðnaður og að baki iðnaðarins er mikið fjármagn. Þessu þarf almenningur að gera sér grein fyrir og vera vakandi gagnvart.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki málið að íslendingar hafa ekkert með byssuleyfi að gera? Er ekki nóg að sérsveitir lögreglu hafi einar leyfi til að fara með skotvopn? Þetta veiðimoment er orðið algerlega úrelt. Við þurfum engin dýr að drepa.

E (IP-tala skráð) 30.12.2012 kl. 21:28

2 Smámynd: Ragnar Geir Brynjólfsson

Veiðimannasamtökin hafa staðið vörð um sína hagsmuni og munu gera það áfram. Ég læt þeim það eftir.

En það er fleira sem hangir á spýtunni E. Það er ekki langur tími síðan bóndi felldi bjarndýr á Norð-Austurlandi. Hann hafði byssuna með sér á fjárhúsin. Minkur, tófa og vargfugl væru einnig erfið viðureignar ef ekki mætti skjóta á varginn af byssu, t.d. af þeim sem stunda ræktun á sauðfé eða æðardúni svo tekið sé dæmi. Þar eru ríkir hagsmunir í húfi.

Ragnar Geir Brynjólfsson, 30.12.2012 kl. 21:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband