Sköpunarkrafturinn býr gjarnan í fjölbreytninni

Í umræðu um sameiningu háskóla kom það sjónarmið nýlega fram að engin rök væru fyrir því að reka sjö háskóla á Íslandi. Eflaust er rétt að mikið má hagræða á þessu sviði en hinu er vart hægt að mæla mót að í fjölbreyttri háskólaflóru síðastliðinna ára hafa ýmsar þarfar og löngu tímabærar nýjungar litið dagsins ljós. Sem dæmi má nefna öfluga fjarkennslu Háskólans á Akureyri og öflugt frumkvöðlastarf Háskólans í Reykjavík á sviði tölvunarfræða.

Með þessum orðum er ekki á nokkurn hátt verið að gera lítið úr starfi Háskóla Íslands á sviði tölvunarfræði eða fjarkennslu á árum áður, aðeins að benda á að þegar minni sjálfstæðar stjórnunareiningar líta dagsins ljós að þá verða áherslur stjórnenda þeirra, forgangsröðun og framtíðarsýn meira ráðandi þættir í starfseminni þegar leitast er við að skapa stofnuninni sérstöðu og sóknarfæri.

Ég minnist þess til dæmis að þegar ég byrjaði að læra tölvunarfræði haustið '84 þá fengu tölvunarfræðingar líklega 3000 króna tölvukvóta á önn en viðskiptafræðingar 20.000! Aðgangurinn var að VAX tölvu Reiknistofnunar og með þessum gjöldum átti að tryggja að tölvukosturinn fengi næga endurnýjun.  Það lá því í augum uppi að tölvufræðideildin bjó við fjárskort og aðstöðuleysi ef miðað var við aðrar deildir.  Um stórhug og dugnað stjórnenda hennar efast þó enginn og mér er efst í huga þakklæti þegar ég hugsa til þeirra og þeirrar baráttu sem þeir hljóta að hafa háð fyrir deildina innan Háskólans.

Þegar stórar einingar móta sér framtíðarsýn má búast við að það sé meirihlutinn sem ráði og valdið sé fjær þeim sem hafa faglega sýn á hlutina. Þegar heildarhagsmunir eru vegnir og metnir getur ýmsum þótt sjálfsagt eða skynsamlegt að fórna ýmsum metnaðarfullum en dýrum vaxtarbroddum.

Í þessu máli þyrfti að athuga hvort hægt væri að sameina skólana en um leið efla sérstöðu hverrar deildar og gefa þeim svigrúm, færi og frelsi til að móta sjálfstæða framtíðarsýn og stefnu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband