Færsluflokkur: Dægurmál

Hinar mörgu hliðar umhverfisstefnunnar - kjörorðin eiga að vera „snjallt“ og „endingargott“ en ekki „nýtt“

Þetta með að offita stuðli á aukinn þátt í loftslagsbreytingum þarf ekki að koma á óvart því allt sem gert er hefur áhrif. Það er ekki nóg að flokka úrgang og skila. Ef við viljum taka betur á þá hreyfum við líka einkabílinn sem minnst og sláum fjórar flugur í einu höggi; fáum hreyfingu og brennum minna af kolefnaeldsneyti auk þess að spara bæði kostnað við líkamsrækt og bensín.

En þannig mætti líka lengi telja. Hversu mikil þörf er ekki á því að hægja á lífsþægindagræðgi nútímans og taka upp siði sem voru aflagðir hér fyrir svo sem hálfri öld eða svo. Þá voru allir hlutir gernýttir og engu hent sem hægt var að endurnýta. Snærisspottar voru geymdir og splæstir saman, allt timbur nýtt til hins ítrasta, gamlar mublur gengu kaupum og sölum þangað til þær liðuðust í sundur. Bílar voru lagaðir og lagaðir og jafnvel handsmíðaðir í þá hlutir.  Þá voru ferðalög ekki svo algeng því þau voru firnadýr og líkur eru á að svo verði í framtíðinni. Fólk, jafnvel ókunnugir sameinuðust um bílferðir. Pælið í því! Þetta var nægjusamara þjóðfélag en það sem við búum í í dag en það var líka umhverfisvænt á sinn hátt þó svo orðið hafi ekki verið til þá.

Með því að kaupa eitthvað, hvort sem það er ferðalag eða hlutur erum við að stuðla að mengun og óþrifnaði í kringum okkur og því meira sem við kaupum því meira sóðum við út. Við sjáum kannski ekki óþverrann, hann getur sem hægast verið að safnast upp hinum megin á jörðinni, en hann er býsna örugglega þarna einhversstaðar.  Hversu mikið er ekki búið að henda af stóru túpusjónvörpunum sem voru vinsæl rétt áður en flatskjáirnir komu? Það eru trúlega einhver ósköp. Í þessu tilliti þarf hver og einn að skoða sitt hugskot og velta orðinu 'nýtt' af stallinum og setja þar frekar eitthvað á borð við 'snjallt' eða 'endingargott'.


mbl.is Offita stuðlar að loftslagsbreytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju kemur vonda veðrið okkur alltaf jafn mikið á óvart?

Á Selfossi var ástandið ekki slæmt hvað varðar samgöngur í gærmorgun, þar voru götur ruddar og lítið fjúk en strax og kom út fyrir bæinn var ástandið mun verra, skafrenningur og skafbylur, skyggni lítið, hálka, myrkur og þæfingsfærð fyrir fólksbíla.  Ástandið á Eyrarbakkaveginum var ekki burðugt. Á móts við Stekka hafði snjóplógur farið útaf og fyrir sunnan var þæfingsfæri. Á móts við snjóplóginn voru fólksbílar að festast í snjó á veginum. Ég var á jeppa og keyrði niður að Stokkseyri snemma á 8. tímanum og lagði af stað uppúr aftur rétt fyrir 8. Þá voru komnar langar raðir á móts við Stekka, bílar voru fastir og einn hafði lent útaf. Ef fólkið í fólksbílunum hefði vitað hvernig aðstæður voru þarna þá er ég nokkuð viss að margir hefðu frestað för sinni en ekkert heyrðist um þetta í RÚV, en talað var um erfiðleika á Reykjanesbraut, á Hellisheiði og í Þrengslum. Enn og aftur þarf ég að greiða afnotagjaldið með það á tilfinningunni að ég sé ekki að fá andvirðið til baka í því öryggi sem lögboðið er svo sem sjá má í 8. gr. laga nr. 6 frá 2007 um RÚV.

Þegar svona gerist þá vakna efasemdir um að samfélagið sé að nýta sér þær upplýsingar sem fáanlegar eru bæði með veðurspám og svo um aðstæður á hverjum stað frá fólki á staðnum. Bæði eru veðurspár orðnar mun öruggari en áður var og svo hefur farsímatæknin breytt miklu. Í síðasta óveðurskafla sem varð fyrir 8 árum hér á Suðurlandi hefur farsímaeign örugglega ekki verið jafn útbreidd og hún er núna. Veðurspáin kvöldið áður varaði við stormi á bilinu 13-20 metrum og að verst yrði við ströndina. Snjór var jafnfallinn og laus um 20 sentimetra þykkur á þessu svæði og því nokkuð fyrirsjáanlegt hvað myndi gerast.  Við býsnumst gjarnan yfir því fólki sem leggur á fjöll í slæmri spá en gerum sjálf svo nákvæmlega það sama við okkar eigin bæjardyr þó fyrirsjáanlegt sé að aðstæður geti orðið bæði hættulegar og heilsuspillandi ekkert síður en á fjöllum og ætlumst jafnframt til að aðrir geri slíkt hið sama. Af hverju er öryggi og heilsa fólks ekki látin njóta alls mögulegs vafa? Hér er þörf á bæði umræðu og hugarfarsbreytingu sem fyrst.

 


Getur EFTA gengið í endurnýjun lífdaga?

Tillaga Björgólfs Thors í Kastljósinu á dögunum um að taka gengisáhættu út úr rekstri fyrirtækja hér á landi með því að skipta um gjaldmiðil er allrar athygli verð. Hann lagði m.a. til að taka upp svissneska frankann. Viðskiptaráðherra var fljótur til svars og taldi tormerki á því að það væri hægt því til þess þyrfti að koma á myntbandalagi við Sviss.

Nú spyr ég því í framhaldinu: Hvers vegna er ekki hægt að koma á myntbandalagi við Sviss? Hér er þegar fyrir hefð fyrir löngu samstarfi við Sviss í gegnum EFTA fríverslunarbandalag Evrópu sem segja má að sé ekki síðri hugmynd að samstarfi Evrópuríkja en EES þó svo síðarnefnda bandalagið hafi vaxið mun meira á síðustu áratugum. Sú viðleitni EES að koma á Bandaríkjum Evrópu er trúlega óraunhæf. Þó svo stofnun Bandaríkja Norður- Ameríku hafi tekist þrátt fyrir eitt frelsisstríð og eina borgarastyrjöld þá er ekki tryggt að sama gangi í Evrópu. Þar voru menn að stofna nýtt þjóðríki en hér er verið að sameina ríki þar sem hefðir og venjur eru fastar í sessi - sem og þjóðtungur og þjóðarsérkenni sem fólki eru kær.  Í Bandaríkjunum fórnuðu menn sínum þjóðlegu sérkennum af því þeir voru komnir í nýtt land. Hér í Evrópu er ekkert slíkt að gerast.

Fríverslunarbandalag Evrópu er aðili að EES samningnum og sá kostur að efla það bandalag og það samstarf er því möguleiki sem ætti að kanna til hlítar og ekki spillir tillaga Björgólfs í þessu sambandi.


Hrina smáskjálfta skammt austan við Selfoss

Í dag hófst hrina smáskjálfta skammt austan við Selfoss, nánar tiltekið á móts við Laugardæli um 1-2 km. austan við þéttbýlið á Selfossi. Hrinan hófst laust eftir kl. 10 í morgun og hefur staðið yfir í allan dag. Stærstu skjálftarnir hafa verið 1,7 og 1,6 á óyfirförnum kvarða Veðurstofunnar sjá hér:

 http://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/jardskjalftar/#view=table

Á jarðskjálftasjánni sést að skjálftarnir mynda nokkuð regluleg mynstur í grófa NA-SV stefnu.

Heimild: Jarðskjálftavefur Veðurstofu Íslands.


Myndarleg hátíðahöld á degi íslenskrar tungu

Hátíðahöldin í tilefni dags íslenskrar tungu sem haldin voru í Þjóðleikhúsinu og sjónvarpað í beinni útsendingu á föstudaginn var voru sannarlega bæði skemmtileg og ánægjuleg. Í dag er svo endursýning þessa atburðar í RÚV sjónvarpinu. Einstaka bloggari hefur haft á orði að of mikið hafi verið gert úr deginum en ég er ekki sammála. Jónas Hallgrímsson var stórkostlegt skáld og það sem sagt var um hann og tungumálið á þessum degi var ekki ofsagt né of oft endurtekið. Jónas er verðugur fulltrúi endurreisnar hinnar íslensku menningar sem fram fór á 19. öld og síðar og vel að þessum heiðri komin. Í tilefni þess að 200 ár eru liðin frá fæðingu hans er það sem fram fór alveg viðeigandi og sér í lagi vegna þess að þau viðhorf sem Jónas tefldi fram í stjórnmálaumræðu sinnar tíðar eru brýn enn þann dag í dag því að á dögum Jónasar sótti danskan stíft á íslenskuna en í dag er það enskan sem aldrei fyrr. Menntamálaráðuneytið og ráðherra og allir þeir sem hönd lögðu á plóginn eiga því heiður skilinn vegna smekklegra, skemmtilegra og vel viðeigandi hátíðahalda.


Til hamingju Sigurbjörn!

Sigurbjörn biskup er vel að þessum heiðri kominn því þótt ritstörf hans myndu ein og sér nægja til þessara verðlauna þá sýndi hann í kvöld í Þjóðleikhúsinu og þjóðin fékk að fylgjast með í beinni útsendingu að hann er einn af mestu og bestu ræðumönnum sem þessi þjóð hefur alið. Hann er því ekki bara maður hins ritaða heldur einnig hins talaða orðs og það með glæsibrag. Ég minnist t.d. frægra sjónvarpspredikana hans hér á árum áður sem voru umtalaðar og annálaðar fyrir góðan flutning og hve auðvelt hann átti og á greinilega enn með að hrífa áhorfendur og áheyrendur með sér.


mbl.is Sigurbjörn Einarsson hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fælast hestar við flugvéladyn?

Nokkuð hefur verið rætt að undanförnu um slys sem verða á hestamönnum, einkum vegna þess að þeir fælast af ýmsum ástæðum. Tvö nýleg dæmi veit ég um þar sem hestar fældust vegna dyns frá flugvél í lágflugi en kunningjafólk mitt sagði mér að sínir hestar sem eru vanir flugvélum brygðust ekki hið minnsta við slíku. Dæmi væri um þyrlur á heræfingu sem hafi flogið lágflug yfir hestahóp sem brá sér ekki hið minnsta.  Heimildarmaður minn Brynjólfur Guðmundsson hefur sagt að fyrir seinna stríð hafi það oft gerst að hestar fældust af völdum flugvéladyns en á stríðsárunum hafi verið svo mikil flugumferð að hestarnir hafi vanist hávaðanum og lítið brugðið við eftir það.  Eftir að flugumferð hersins er alveg hætt hefur flugumferð yfir sveitunum trúlega minnkað.  Þá má kannski vænta þess að hestar sem eru upprunnir og tamdir í sveitunum geti fælst þegar þeir koma í þéttbýlið og heyra dyn flugvéla í lágflugi eða annarra hljóða sem þeim eru ekki töm úr sveitinni? Þetta kann að vera nýtt athugunarefni fyrir flugmenn sem hugleiða lágflug yfir slóðum þar sem vænta má að hestar og menn séu á ferð.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband