Nýju húsnæðislögin fjögur í stuttu máli

Markmið nýrra laga um almennar íbúðir er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með auknu aðgengi að hentugu íbúðarhúsnæði til leigu og að tryggja að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda.

Lög um húsnæðisbætur hafa það markmið að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta. Lögin eru einnig liður í því að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform.

Markmiðið með lögum um breytingu á húsaleigulögum er að auka réttaröryggi leigjenda og koma á meiri festu í samskiptum leigjenda og leigusala svo komast megi hjá ágreiningi.

Lög um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög voru samþykkt á Alþingi í apríl sl. Markmið þeirra er að að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa á Íslandi, að auka vernd búseturéttarhafa og skýra nánar réttarstöðu þeirra, annarra félagsmanna sem og húsnæðissamvinnufélaganna sjálfra. Einnig er markmiðið að stuðla að sjálfbærum rekstri slíkra félaga.

Tekið af vef Velferðarráðuneytisins. 

 


Góður árangur Framsóknar á síðasta kjörtímabili

Tekið var á skuldavanda heimilanna, leiðréttingin varð að veruleika, kaupmáttur launa hefur hækkað um rúmlega 20% á kjörtímabilinu. Áætlun um losun fjármagnshafta var hrundið í framvkæmd, 15.000 ný störf urðu til, verðbólgu var haldið í skefjum. Kröfuhafar samþykktu hundruð milljarða stöðugleikaframlög til ríkisins og aflandskrónueigendur fengu skýra valkosti. Samningur um loftslagsmál var undirritaður. 

Úr bæklingnum "xB Framsókn fyrir fólkið" okt. 2016. 


Hluta námslána verður breytt í styrk og áhersla lögð á iðn- og verknám

Framsóknarflokkurinn vill að farið verði í heildarmat á fyrirkomulagi iðnmenntunar í landinu. Sértaklega verði tryggt að skólar sem leggi áherslu á iðn- og verknám fái nægilegt fjármagn til að halda úti öflugri verklegri kennslu. 

Auk þess þarf að skoða með hvaða hætti best er að haga starfsþjálfun utan veggja skólanna með það að markmiði að veita nemendum góða starfstengda þjálfun. Það þarf að ýta úr vör fræðslu meðal barna og unglinga um iðnnám og fjölbreytt störf í iðnaði.

Komið verði á fót samstarfsvettvangi menntamálayfirvalda, kennara og hagsmunaaðila í atvinnulífi. Sá vettvangur nýtist til mótunar á framtíðarsýn, mótun menntastefnu og uppbyggingu öflugrar sí- og endurmenntunar. Lögð verði áhersla á nýsköpun, menntun frumkvöðla og tryggja aðgengi að starfsfærnimati.

Úr kosningastefnuskrá Framsóknar og ályktunum 34. flokksþingsins bls. 21


Fæðingarorlof verði 12 mánuðir og greiðsluþak hækkað í 600 þúsund

Fæðingarorlof verði 12 mánuðir og greiðsluþak hækkað í 600 þúsund krónur, barnabætur hækkaðar og barnaföt verði án virðisaukaskatts. Mikilvægt er að stuðla að því að sveitarfélögin geti boðið upp á leikskóla strax að loknu fæðingarorlofi, þannig að samfella verði tryggð í umönnun barna. Brýnt er að leikskólar séu mannaðir fagfólki. Framsóknarmenn vilja að foreldrar sem þurfa að dvelja fjarri heimili sínu vegna fæðingar barns fái styrk úr fæðingaorlofssjóði til að mæta þeim tíma þannig að fæðingaorlof sé nýtt í þágu barns að lokinni fæðingu.

Úr kosningastefnuskrá Framsóknar og ályktunum 34. flokksþingsins bls. 18.


Taka skal upp komugjald á ferðamenn sem nýtt verður til innviða

Innheimta skal komugjald farþega strax á næsta ári með það að markmiði að vernda náttúruna og tryggja nauðsynlega uppbyggingu viðkvæmra ferðamannastaða. Stýra þarf álagi á fjölmennustu ferðamannastaði landsins. Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á að opnaðar verðir nýjar gáttir í millilandaflugi til og frá Íslandi. Með opnun nýrra gátta verði horft sérstaklega til vetrarferðamennsku og lengingu ferðamannatímabilsins, ásamt því að ferðamannastraumnum og álagi verður betur stýrt um landið.

Úr kosningastefnuskrá Framsóknar og ályktunum 34. flokksþingsins bls. 12. 


Fjármunum er betur varið til samfélagslegra verkefna en til greiðslu vaxta

Framsóknarflokkurinn leggur áherslu á gerð langtímaáætlana í ríkisfjármálum og sjálfbæran rekstur ríkissjóðs. Útgjöld verða að haldast í hendur við tekjur. Hagstjórn þarf að vera ábyrg og ríkisfjármál öguð. Flokksþing fagnar sérstaklega þeim árangri sem náðst hefur á kjörtímabilinu með hallalausum rekstri ríkissjóðs og lækkun skulda. Mikilvægt er að lækka skuldir ríkissjóðs enn frekar m.a. með aukinni verðmætasköpun þjóðarbúsins og með skynsamlegu aðhaldi í rekstri hins opinbera. Flokksþingið styður metnaðarfull markmið ríkisstjórnarinnar um lækkun skulda, enda er fjármunum betur varið til brýnni samfélagslegra verkefna en til greiðslu vaxta.

Úr ályktunum 34. flokksþings Framsóknarflokksins bls. 4-5.


Peningastefnuna þarf að endurskoða - vextir endurspegli breyttan veruleika

Peningastefnuna þarf að endurskoða, raunvextir á Íslandi þurfa að endurspegla breyttan efnahagslegan veruleika. Gera þarf úttekt á fyrirkomulagi peningamyndunar og mögulegum umbótum á því samanber þingsályktunartillögu Frosta Sigurjónssonar og fleiri þingmanna á síðasta þingi. Skoða þarf kosti þess að færa peningamyndun alfarið til Seðlabankans.

Úr kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins og ályktunum 34. flokksþings hans bls. 6. 


Lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð

12. okt. sl. samþykkti Alþingi lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð. Þau mynda grundvöll úrræðisins "Fyrsta fasteign" sem oddvitar síðustu ríkisstjórnar kynntu í ágúst sl. Í lögunum er mælt fyrir um þrjár leiðir við ráðstöfun á viðbótariðgjaldi í lífeyrissjóð. Þær eru 1) heimild til úttektar á uppsöfnuðu viðbótariðgjaldi séreignasparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð, 2) heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á höfuðstól láns og 3) heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess. 

Sjá nánar hér: 
Vefur fjármálaráðuneytisins
Frétt Vísis og Mbl. um málið. 
Ferill málsins á þingi.


Lífreyrir hækkar í 280 þús. 1. jan. '17 og 300 þús. 1. jan. '18

Eitt af þeim málum sem tókst að ljúka fyrir þinglok var stjórnarfrumvarp sem félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttir lagði fram á Alþingi 2. sept. sl. Frumvarpið var svo samþykkt sem lög 13. okt. sl. Samkvæmt lögunum verða elli- og örorkulífeyrisþegum sem halda einir heimili og eru með fullan búseturétt hér á landi tryggðar 280.000 kr. á mánuði frá 1. janúar 2017 og ári síðar hækkar sú fjárhæð í 300.000 kr. Sjá nánar hér á vef Velferðarráðuneytisins. Þetta atriði er númer 3 í kosningastefnuskrá Framsóknar


Skattaívilnanir til efnahagslega veikra svæða

Eitt af þeim málum sem Framsókn setur á oddinn* i komandi kosningum er að skoðað verði hvort beita megi skattaívilnunum til fyrirtækja og einstaklinga á efnahagslega veikum svæðum á landsbyggðinni. Ásgerður Kristín Gylfadóttir frá Höfn, frambjóðandi Framsóknar í Suðurkjördæmi skrifaði grein í Mbl. 12. okt. sl. Þar lýsti hún því hve erfitt getur verið að fá fagfólk til starfa og búsetu úti á landi og algengt sé að læknar sinni heilsugæslu að heiman með því að vera 5-7 daga í héraði með störfum á höfuðborgarsvæðinu. Hún nefndi einnig atriði** sem flokksþing Framsóknar samþykkti nýlega sem ályktun en það er að veita afslátt af námslánum kjósi fólk að setjast að á ákveðnum svæðum sem þarfnast stuðnings. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson oddviti Framsóknar í NA-kjördæmi skrifaði einnig grein í Mbl. 15. okt. sl. (bls. 27) og nefndi þessi atriði en einnig að þriðjungur veiðigjalda ætti að renna til sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins, þriðjungur í þróunarverkefni hringinn í kringum landið og þriðjungur í sóknarverkefni sem geri byggðirnar eftirsóknarverðari. Einnig að opna þurfi nýjar fluggáttir til landsins á Akureyri og Egilsstöðum og gera flugvellina þar betur samkeppnishæfa. Hann nefnir að færa þurfi sveitarfélögunum auknar beinar tekjur af vaxandi ferðaþjónustu því megnið af innviðauppbyggingunni falli til utan Reykjavíkur en megnið af tekjunum séu lögð á í borginni.

*  Sjá 9. punktinn í kosningastefnuskrá Framsóknar. 
** Sjá ályktanir 34. Flokksþings Framsóknar, bls. 28.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband